130 brautskráðust af Bifröst í dag

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. mbl.is/Sigurður Bogi

Í dag brautskráðust 130 nemendur frá Háskólanum á Bifröst við hátíðlega athöfn í Hriflu, hátíðarsal skólans. Þar af luku 55 meistaranámi, 45 grunnámi og 30 nemendur luku námi í háskólagátt skólans. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skólanum.

Skipting milli deilda var þannig að 58 nemendur luku námi frá viðskiptadeild, 42 luku meistaranámi og 16 grunnnámi. Frá félagsvísinda- og lagadeild luku 42 nemar námi, 13 meistaranámi og 29 grunnnámi. Þar af luku 12 nemendur grunndiplómu í skapandi greinum en þetta er í fyrsta sinn sem nemendur útskrifast úr þeirri grein.

Hæstu einkunnir brautskráðra úr meistaranámi hlutu Jenný Ýr Jóhannsdóttir sem útskrifaðist úr viðskiptadeild og Sara Martí Guðmundsdóttir sem útskrifaðist úr félagsvísinda- og lagadeild. Hæstu einkunnir útskrifaðra úr grunnnámi hlutu Bjarni Heiðar Halldórsson sem útskrifaðist úr viðskiptadeild og Jóhanna María Sigmundsdóttir úr félagsvísinda- og lagadeild. Arnfríður Árnadóttir hlaut hæstu einkunn útskrifaðra úr háskólagátt.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor skólans stiklaði í hátíðarræðunni meðal annars á stóru um viðburði liðins vetrar sem var um margt sérstakur. Hann var fyrsti vetur Margrétar í starfi og farsótt setti óneitanlega svip sinn á starfsemi skólans.

Margrét brýndi fyrir útskriftarnemum að vera leiðtogar í eigin lífi, vera óhræddir að láta sig dreyma og óttast ekki heldur að breyta draumum sínum. Hins vegar benti hún á að ekki væri nóg að láta sig dreyma heldur þyrfti fólk að mæta á staðinn og vinna saman. „Þau sem mæta á staðinn stýra því sem gerist,“ sagði Margrét í lok ræðu sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert