Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.
Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.
„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.