Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Hlíðar, er á meðal sex af þeim 150 félagsmönnum Einingar-Iðju, sem starfa á hjúkrunarheimilum Akureyrarbæjar, sem var sagt upp störfum í gær.
Halldór segir hópuppsagnir skapa óöryggi meðal starfsmanna og óvissu fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna.
Halldóri var ekki gert að vinna uppsagnarfrest og er hann því strax hættur störfum. Hann segir uppsögnina hafa komið sér í opna skjöldu.
„Eins og við má búast er maður bara dapur yfir því að þetta sé niðurstaðan,“ segir Halldór í samtali við mbl.is. „Ég hafði ímyndað mér að þarna væru ýmsir möguleikar og tækifæri en þá lá fyrir að leiðirnar liggja ekki saman. Þetta var ekki fyrirséð.“
Halldór hefur verið framkvæmdastjóri hjá Öldrunarheimilum Akureyrar frá ársbyrjun 2013 en hafði fyrir það starfað við öldrunarmál frá um 1982. Hann hefur því nærri 40 ára reynslu í greininni, segir í frétt Vísis.
Að mati Halldórs leikur enginn vafi á því að ráðist hafi verið í hópuppsagnir til að „reyna ná utan um rekstrarkostnað“.
„Hins vegar var búið að setja af stað ýmsan undirbúning sem hefði skilað árangri en það kann að vera að það hafi verið talið ekki gerast nógu hratt,“ segir hann. „En við höfðum alltaf gert ráð fyrir því að heimilin mundu halda áfram að vera svona miðstöð nýsköpunar og þekkingar í öldrunarþjónustu þótt það gæti verið að breytast eitthvað núna.“
Halldór segir það ljóst að uppsagnirnar muni hafa áhrif á starfsemi hjúkrunarheimilanna. Hann bindur þó vonir við að starfsfólkið sem eftir stendur nái að halda áfram því góða starfi sem þar hefur farið fram.
„Það segir sig bara sjálft að svona hópuppsagnir skapa óöryggi meðal starfsmanna. Þá skapar þetta líka ákveðna óvissu fyrir aðstandendur og kannski fyrir einhverja íbúa. Burðarás starfseminnar er starfsfólkið og sá hópur sem er eftir þarna mun örugglega gera það sem hann getur til að halda utan um strauma og stefnur eins og við höfum unnið að þeim áður og vonandi tekst það, öllum til hagsbóta. Það segir sig náttúrulega sjálft að þegar starfsfólki er fækkað þarf að breyta þjónustustiginu,“ segir hann.
Að sögn Halldórs hafa öldrunarheimilin verið flaggskip í öldrunarþjónustu á Íslandi. „Við erum eða vorum það heimili sem hafði hæsta hlutfall fagmenntaðs fólks og vorum svona næst viðmiðun landlæknis um mönnun og umönnunarklukkustundir. Maður veit ekki hvað gerist með þær staðreyndir núna. Ég efast hins vegar ekkert um það að hugur manna standi til þess að gera vel. Ég trúi því nú þangað til annað kemur í ljós,“ segir hann.
Spurður hvað hann telji hafa ráðið því hverjum var sagt upp segist Halldór ekki vita það.
„Ég á örugglega eftir að fá að heyra einhverjar skýringar á því. Það er einn og hálfur mánuður síðan það var gengið frá skiptum milli opinbera geirans og Heilsuverndar. Um þetta áttu að gilda lög sem heita aðilaskiptalög og þar með reikna ég með því að það þurfi með einhverjum hætti að gera grein fyrir því hvers vegna þetta fór sem fór.“
Þó að uppsögnin hafi komið Halldóri á óvart segist hann horfa björtum augum fram á veginn.
„Þetta er eins og ég segi frekar óvænt miðað við það sem var búið að segja og gefa í skyn áður. Þetta er bara að síast inn. Það fylgja öllum krossgötum einhverjir nýir möguleikar.“