Hjólreiðakeppnin Síminn Cyclothon verður haldin dagana 22.-25. júní en um er að ræða stærstu götuhjólakeppni á Íslandi þar sem keppendur hjóla hringinn í kringum landið til styrktar góðu málefni.
Keppt verður bæði í einstaklings- og liðakeppni með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, samtals 1.358 kílómetra á undir 72 klukkustundum.
Hjólakeppnin hefur styrkt ýmis góð málefni í gegnum tíðina en í ár munu keppendur safna áheitum til styrktar Landvernd, stærstu náttúruverndarsamtökum Íslands. Samtökin starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu og telur Síminn Cyclothon gildi samtakanna eiga vel við hjólreiðar sem vistvænan ferðamáta við söfnun áheita til samtakanna.
Þá munu 60 ungmenni, flest á aldrinum 16-18 ára, keppa saman sem eitt lið í nafni Hjólakrafts í ár. Hjólakraftur er heilsueflandi átak sem ætlað er að hvetja áfram ungt fólk sem hefur áhuga á hjólreiðum. Ungmennin munu hjóla jafn langa vegalengd og önnur lið, þ.e. allan hringinn í kringum landið.
Skráningu í keppnina lauk formlega í maí en hægt er að bæta við þátttakendum ef lið óska þess. Þá er einnig svigrúm til að skrá lið til leiks, segja forsvarsmenn keppninnar í samtali við mbl.is
Meðal keppnisliða í ár er liðið RECON, sem mun safna áheitum fyrir Landvernd líkt og aðrir keppendur. Liðsmenn RECON hafa þó ákveðið að gera gott betur og ætla einnig að hjóla til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.
Liðið samanstendur af átta vinum og samstarfsfélögum en það eru: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Magnús Lárusson, Jón Árni Ólafsson, Sindri Bergmann, Birgir Árnason, Ingimar Guðmundsson, Árni Már Rúnarsson og Ágúst Ævar Gunnarsson.
„Við ákváðum að skrá okkur til leiks en langaði að safna fyrir Kraft og því góða starfi sem þar er unnið. Nokkrir okkar hafa tekið þátt í keppninni áður en aðrir, þar á meðal ég, eru með minni reynslu. Við höfum þó æft okkur af krafti síðustu mánuði og ég held að reynslan sé hægt og rólega að smitast yfir á okkur reynsluminni. Við stefnum aðallega á að gera þetta skemmtilegt,“ segir Aðalsteinn Haukur Sverrisson, forsprakki liðsins.
Hægt verður að heita á RECON með því að leggja inn á bankareikninginn: 0370-13- 006736, kt. 531114-0430 eða á Karolina Fund.