Hópuppsagnirnar komu ekki á óvart

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju. mbl.is/Eggert

Björn Snæbjörnsson, formaður stéttarfélagsins Einingar-Iðju, er þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að sjá um rekstur hjúkrunarheimila og að ríkið eigi að borga rekstrarkostnað þeirra. Hann segir hópuppsagnir gærdagsins á hjúkrunarheimilum Akureyrarbæjar ekki hafa komið sér á óvart.

Einkahlutafélagið Heilsuvernd tók við rekstri hjúkrunarheimila fyrir Sjúkratryggingar Íslands á Akureyri í aprílmánuði og hefur á undanförnum dögum sagt upp á þriðja tug starfsmanna öldrunarheimilanna, eins og Vísir hefur greint frá.

Sex af þeim 150 félagsmönnum Einingar-Iðju sem starfa á hjúkrunarheimilum Akureyrarbæjar var sagt upp störfum í gær.

Ekki neitt sérstakt mynstur

„Maður gat alveg búist við þessu þar sem Akureyrarbær taldi sig ekki geta rekið þetta og svo tók einkafyrirtæki við þessu, þannig að maður gat alveg búist við einhverri hagræðingu. Það er ekki spurning. Maður óttaðist þetta alveg en auðvitað vonaði maður bara það besta. Þetta kom ekkert þannig á óvart,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Að hans sögn er ekki að sjá neitt sérstakt mynstur í því hverjum var sagt upp.

„Þetta var fólk á öllum aldri, bæði konur og karlar.“

Þá telur hann að þeim sem sagt var upp sé ekki gert að vinna uppsagnarfrest en segir þá einstaklinga eiga að halda sínum réttindum og launum.

„Ég held að þetta hafi bara verið þannig að þau þurfi ekki að vinna uppsagnarfrestinn heldur fá hann bara greiddan. En það er alveg ljóst að þetta fólk sem fór yfir frá Akureyrarbæ heldur öllum sínum réttindum og launum samkvæmt samningum sveitarfélaganna.

„Það er alltaf slæmt þegar fólki er sagt upp“

Spurður út í áhrifin sem uppsagninar munu hafa á störf hjúkrunarheimilanna segist Björn ekki vita hvað muni breytast. Það viti þó aldrei á gott þegar ráðist er í svo stórtækar uppsagnir.

„Það er alltaf slæmt þegar fólki er sagt upp. Þetta hlýtur að leiða til þess að það verði einhver uppstokkun í vinnutilhögun og þess háttar. Okkur hefur ekki verið kynnt neitt hvernig þessar breytingar verða,“ segir hann.

Afstaða Björns í málinu er skýr en hún er að rekstur hjúkrunarheimila eigi ekki að vera í höndum einkafyrirtækis.

„Mín persónulega skoðun er sú að sveitarfélög eigi að sjá um þennan rekstur og ríkið eigi að borga þann kostnað. En við bíðum bara og vonum hið besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert