Tengd við samsæriskenningar og kosningasvindl

Michele Roosvevelt Edwards.
Michele Roosvevelt Edwards. mbl.is/Árni Sæberg

Michelle Roosevelt Edwards, áður Michelle Ballarin, laug til um að hún ætti 30 milljóna dollara  herrasetur í Virginíu í Bandaríkjunum, í viðtali við Kveik sem sýnt var 4. febrúar síðastliðinn. Edwards hefur verið í kastljósi íslenskra fjölmiðla síðustu ár, þar sem hún kveðst ætla að endurreisa hið fallna lággjaldaflugfélag Wow Air.

Þetta kemur fram í ítarlegri fréttaskýringu Washington Post, þar sem rætt er við raunverulegan eiganda setursins, ónefnda ekkju fjárfestisins Davids B. Fords, og var henni sýnt viðtal Kveiks við Edwards.

Michelle Roosevelt Edwards sýnir fréttamönnum Kveiks sín helgustu vé, í …
Michelle Roosevelt Edwards sýnir fréttamönnum Kveiks sín helgustu vé, í húsi sem hún átti alls ekki. Skjáskot/Rúv

„Hún er í húsinu mínu,“ sagði hún við fréttamenn Washington Post. „Hvernig komst hún inn í húsið mitt?“

Það var enda nokkuð ljóst á myndum sem sáust í þætti Kveiks frá í febrúar, að sennilegast ætti Edwards ekki húsið þar sem fréttamönnum bauðst að taka við hana viðtal.

Þegar henni var tjáð að húsið virtist enn vera á sölu sagði Edwards að hún hefði keypt það mjög nýlega. Svo þegar fréttamaður Kveiks benti á að engir persónulegir munir væru inni í svefnherbergi hennar, því rými hússins sem hún sagði að væru sín helgustu vé, var fátt um svör.

Atkvæði færð á milli frambjóðenda með gervihnetti

Í frétt Washington Post má svo finna lygilegar lýsingar á samsæriskenningu sem hlotið hefur viðurnefnið „Italygate“. Sú kenning hverfist um að ítalskt fyrirtæki hafi tekið þátt í meintu kosningasvindli í forsetakosningunum seinustu í Bandaríkjunum.

Þannig átti þetta ítalska fyrirtæki að hafa aðstoðað leyniþjónustu Bandaríkjanna við að flytja atkvæði milli Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, og Joes Bidens, sitjandi forseta, á meðan verið var að telja atkvæði. Til þess á að hafa verið notaður gervihnöttur bandaríska hersins.

Washington Post segir að þáverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, Mark Meadows, hafi sent bréf til Jeffreys Rosens, þáverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, þar sem þessi ótrúverðuga samsæriskenning er rakin.

Mark Meadows, fyrrum starfsmannastjóri Hvíta hússins.
Mark Meadows, fyrrum starfsmannastjóri Hvíta hússins. AFP

Fyrirtæki Michelle flækjast inn í málið

Þetta fullyrðir Washington Post í krafti þingskjala sem bandaríska þingið gerði nýverið opinber. Þar kemur fram að umrætt bréf hafi verið skrifað á pappír merktan fyrirtækinu USAerospace Partners, sem fyrrnefnd Edwards er í forsvari fyrir og hefur höfðustöðvar í Virginíu.

Á öðru bréfi skýtur svo annað fyrirtæki upp kollinum, The Institute for Good Governance, einnig með höfuðstöðvar í Virginíu, en Edwards er þó nefnd á nafn í hvorugu bréfinu, þrátt fyrir að vera í forsvari fyrir bæði fyrirtækin.

The Institute for Good Governace var svo sömuleiðis skráð með höfuðstöðvar í herrasetrinu sem Edwards laug til um að hafa keypt.

Saksóknaraembætti í Róm, höfuðborg Ítalíu, sagði við Washington Post að það væri til skoðunar embættisins hvort umrætt ítalskt fyrirtæki hefði verið borið fölskum sökum.

Viðurkenndi sjálfur að „fréttirnar“ væru falsaðar

Málið allt þykir vera vísbending um að Ballarin hafi tekið þátt í því að tromma upp umrædda samsæriskenningu, sem sótti mikið í sig veðrið vikurnar á milli forsetakosninganna í nóvember 2020 og innsetningu Bidens seint í janúar á þessu.

Samsæriskenningunni óx fiskur um hrygg þegar hinn umdeildi ítalski sjónvarpsmaður Daniele Capezzone birti frétt um að bandarísk yfirvöld hefðu til rannsóknar hvort ítalskt fyrirtæki hefði reynt að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna.

Sú frétt birtist í ítalska blaðinu La Verità 1. desember í fyrra.

Capezzone hefur síðar lýst samsæriskenningunni sem einmitt því: „Samsæriskenning, falsfrétt, eitraður kaleikur,“ sagði hann í skriflegu svari til Washington Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert