Áfram unnið að uppbyggingu grunnþjónustu í Malaví

Inga Dóra Pétursdóttir forstöðukona sendiskrifstofunnar í Malaví og Charles Kalemba …
Inga Dóra Pétursdóttir forstöðukona sendiskrifstofunnar í Malaví og Charles Kalemba ráðuneytisstjóri sveitarstjórnarráðuneytis Malaví. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að framlengja stuðning Íslands við héraðsþróun í Mangochi-héraði í Malaví til næstu tveggja ára. Skrifað var undir samning þess efnis í höfuðborginni Lilongve fyrir helgi. 

Um er að ræða framlengingu á verkefnastoðinni „Mangochi Basic Services Programme II 2017-2021“ að upphæð sjö milljónir Bandaríkjadala frá 1. júlí 2021 til loka mars 2023. Helsti samstarfs- og framkvæmdaaðili er héraðsstjórn Mangochi-héraðs.

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongve, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands en Chancy Simwaka, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis Malaví, Charles Kalemba, ráðuneytisstjóri sveitarstjórnarráðuneytis Malaví, og Raphael Piringu, héraðsstjóri í Mangochi fyrir hönd Malaví. 

Yfirmarkmið verkefnisins, sem er stærsta þróunarsamvinnuframlag Íslands í landinu, er að styðja viðleitni stjórnvalda í Malaví og sérstaklega héraðsstjórnvalda í Mangochi til að bæta grunnþjónustu og félags- og efnahagsleg lífsskilyrði. Helstu verkþættir eru uppbygging í heilbrigðismálum, með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu; uppbygging í grunnskólum, með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið; bætt aðgengi að hreinu vatni; hreinlætis- og salernismál; stuðningur við atvinnutækifæri og valdefling kvenna og ungmenna; og héraðsskrifstofuna með áherslu á deildir fjármála, framkvæmda, útboðs- og innkaupsmála og eftirlits.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert