Getur verið upp á líf og dauða

Björgunarbátur. Gréta segir það ekki léttvæga ákvörðun að kalla til …
Björgunarbátur. Gréta segir það ekki léttvæga ákvörðun að kalla til þyrlu Gæslunnar þegar slys verða á sjó. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Til þess að hægt sé að gera notkun fjarlækningabúnaðar fyrir sjómenn að útbreiddum möguleika skortir samtal við heilbrigðisyfirvöld. Aðalforsenda fyrir því að af notkun verði er að læknir sé tilbúinn með aðstoð þegar kallið kemur. Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brimi, segir að búnaðurinn geti bjargað mannslífum.

Brim átti frumkvæði að þróun fjarlækningabúnaðarins í samstarfi við Radíómiðun. Búnaðurinn gerir læknum kleift að skoða hjartalínurit og önnur helstu mæligildi lífsmarka hjá sjómönnum þrátt fyrir að þeir séu ekki í landi. Kerfinu hefur verið komið fyrir í uppsjávarskipum félagsins, Víkingi AK og Venus NS. Það var tekið í notkun fyrir þremur árum.

Segir það miður að tæknin sé ekki komin í öll skip

„Þegar slys verða á sjó er ekki léttvæg ákvörðun að kalla þyrlu Landhelgisgæslunnar til en sú ákvörðun getur verið upp á líf og dauða. Með fjarlækningabúnaðinum á að vera hægt að ná sambandi beint við heilbrigðisþjónustu í landi, gögn og upplýsingar send til læknis sem leiðbeinir við fyrstu hjálp og metur aðstæður. Skjót viðbrögð skipta gríðarlegu máli,“ segir Gréta María.

Búnaðurinn er ekki kominn í fleiri skip Brims þar sem mótaðila vantar með fagþekkingu til að geta verið á vaktinni þegar á þarf að halda. Óskandi væri, að sögn Grétu Maríu, að mögulegt væri að tengja þjónustuna við lækni á bráðamóttöku svo sjómenn gætu alltaf leitað í neyðaraðstoð þegar þess gerist þörf.

„Okkur finnst miður að þetta sé ekki komið í öll skip. Okkur vantar mótaðila, einhvern lækni til þess að vera á vaktinni.“

Gréta María Grétarsdóttir.
Gréta María Grétarsdóttir.

Gréta María segir að miðað við þær lausnir sem nú eru í boði hvað varðar fjarheilbrigðisþjónustu ætti að vera hægt að nýta hana mun betur. Í framtíðinni óskar hún þess að mögulegt verði að nota fjarlækningabúnaðinn í víðari tilgangi, t.d. fyrir sjómenn sem þurfa á aðstoð læknis að halda þó ekki sé um að ræða bráðatilvik.

„Það er ekki hlaupið að því fyrir sjómenn að fá læknisþjónustu á þeim tímum sem þeir eru í landi. Með þessum búnaði ætti að vera hægt að gera sjómönnum kleift að eyða ekki þeim tíma sem þeir hafa með fjölskyldu sinni í landi í það að fara til læknis, heldur gætu þeir sótt þá þjónustu á meðan þeir eru á sjó. Þannig að þessi búnaður býður upp á fleiri notkunarmöguleika en bara að fást við alvarleg slys,“ segir Gréta.

„Það þarf auðvitað að hugsa í lausnum og hvernig bjóða á öllum starfsstéttum upp á heilbrigðisþjónustu, bæði á sjó og í landi. Við erum alltaf að vinna í að gera vinnuumhverfi sjómanna og allra sem starfa hjá okkur öruggara. Þarna sjáum við tækifæri til að gera betur. Við viljum því koma á samtali, nýta tæknina og finna lausnir til að færa þjónustuna til sjómanna,“ segir Gréta María.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert