Innleiða nýja framtíðarlausn í stað urðunar

Önundur Jónasson stjórnarformaður Kölku, Hrefna B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands, …
Önundur Jónasson stjórnarformaður Kölku, Hrefna B. Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands, Líf Magneudóttir stjórnarformaður SORPU og Jón Valgeirsson, stjórnarformaður Sorpstöðvar Suðurlands.

Fjögur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa gert með sér samning um forverkefni til undirbúnings að innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar. Samband íslenskra sveitarfélaga mun auk þess tengjast verkefninu með sinni sérþekkingu á málaflokknum. 

Sorpsamlögin fjögur eru SORPA bs., Kalka sorpeyðingarstöð sf., Sorpurðun Vesturlands hf. og Sorpstöð Suðurlands bs. Starfssvæði samlaganna nær frá Gilsfirði í vestri að Markarfljóti í austri að því er fram kemur í tilkynningu og falla þar til um 83 til 85% alls þess úrgangs sem fellur til á landinu öllu. 

Í ljósi vaxandi krafna um bætta meðhöndlun og flokkun úrgangs og áherslu á að lágmarka þörf fyrir urðun á úrgangi liggur fyrir að á komandi árum þarf að breyta meðhöndlun á brennanlegum úrgangi sem hingað til hefur verið urðaður.

Fyrirliggjandi upplýsingar frá þessum samlögum og niðurstöður nýlegrar greiningar Iceland Resource á brennsluþörf á Íslandi vegna breyttrar meðhöndlunar feli í sér þörf á brennslulausn fyrir allt að 100 þ. tonn árlega.

Forverkefnið er fyrsta skref í undirbúningi að innleiðingu lausnarinnar og er ætlað að undirbyggja sem best ákvörðun um tæknilausnir, staðarval, umfang fjárfestingar, áhættugreiningu og annað sem skiptir máli við ákvarðanatöku um endanlegar útfærslur leiða og lausna sem velja þarf. Þó svo meginþungi þarfarinnar tengist starfssvæði samlaganna fjögurra verður við vinnslu verkefnisins horft til leiða og lausna fyrir landið allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert