Óhreinsuðu skólpi verður veitt í sjó frá morgni þriðjudags 22. júní, til loka vinnudags fimmtudaginn 24. júní. Er þetta vegna tenginga á nýjum fráveitulögnum við gatnamót Sæbrautar og Snorrabrautar. Skólpið er losað um yfirfallsútrás sem nær um 90 metra frá landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Veitur munu dæla milli fráveitulagna á svæðinu til að lágmarka eins og kostur er þann tíma er skólp fer í sjó og tryggja að magnið verði sem allra minnst, segir í tilkynningunni.
„Nú sem endranær er fólk minnt á að klósett eru ekki ruslafötur og að allt það sem hent er í salerni fer í sjó ef dælu- og hreinsistöðvar eru ekki virkar. Sjórinn hreinsar lífrænu efnin hratt og vel og slík mengun varir í skamman tíma. Á þessum árstíma brotna gerlar í sjó niður á 1-2 klst. Rusl, eins og blautklútar, tannþráður, eyrnapinnar, smokkar og dömubindi, svo fátt eitt sé nefnt, er verra viðureignar og skilar sér á endanum í fjörur sem margar eru nýttar til útivistar,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að fylgst verði með fjörum í kjölfar losunarinnar og ef rusl berst í þær verður það hreinsað.
„Fólki er bent á að fara ekki í fjöru eða í sjó í nágrenni útrásarinnar meðan á framkvæmdunum stendur.“