Prestar í Prestafélagi Íslands samþykktu kjarasamning við kjaranefnd Þjóðkirkjunnar með um 2/3 hlutum atkvæða þann 12. júní. Meðaltalslaunahækkun er um 3,25%. Aukakirkjuþing samþykkti kjarasamninginn fyrir hönd Þjóðkirkjunnar-Biskupsstofu í gær.
„Þetta er fyrsti kjarasamningurinn sem prestastéttin gerir við Þjóðkirkjuna-Biskupsstofu. Við vorum áður undir kjararáði en svo var það afnumið,“ sagði séra Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður Prestafélags Íslands. Hún sagði að Þjóðkirkjan og ríkið hefðu gert viðbótarsamkomulag um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Í því fólst m.a. að prestar yrðu ekki lengur embættismenn ríkisins heldur starfsmenn Þjóðkirkjunnar-Biskupsstofu.
„Við erum ekki lengur skipaðir embættismenn til fimm ára heldur starfsmenn með uppsagnarfrest eins og almennt gerist,“ sagði Ninna Sif. „Prestar voru almennt hlynntir þessari breytingu. Við eigum mikið undir því að ráðningarsambandið við Þjóðkirkjuna verði gott og farsælt því þetta er nánast eini vinnuveitandinn sem við getum leitað til.“
Enn eru að störfum prestar sem voru æviráðnir samkvæmt eldra fyrirkomulagi. Þeir munu halda sínum réttindum, að því er fram kemur í Morgnblaðinu í dag.