Segir klíkuskap og klækjastjórnmál í Viðreisn

Ingólfur segir að frammáfólki innan Viðreisnar sé um að kenna …
Ingólfur segir að frammáfólki innan Viðreisnar sé um að kenna að klíkuskapur og klækjastjórnmál hafi einkennt val flokksins á lista fyrir næstu þingkosningar. Ljósmynd/Aðsend

Ingólf­ur Hjör­leifs­son, fyrr­um fram­bjóðandi Viðreisn­ar til þing­kosn­inga, lýs­ir klíku­skap, ólýðræðis­legri aðferð við val á lista og vald­manns­legri fram­komu fá­menns hóps inn­an flokks­ins, í sam­tali við mbl.is.

Sjálf­ur hef­ur Ingólf­ur sagt sæti sínu lausu á lista Viðreisn­ar í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi suður. Hann gaf kost á sér í 3.-5. sæti list­ans en hon­um blöskraði þegar Bene­dikt Jó­hann­es­son, fyrr­um formaður flokks­ins og einn stofn­enda hans, var hlunn­far­inn um sæti á lista af upp­still­ing­ar­nefnd flokks­ins í Reykja­vík. 

Ingólf­ur seg­ir að hann hefði frek­ar kosið að próf­kjör yrði haldið en að fá­menn­ur hóp­ur hafi, með vinnu­brögðum sem Ingólf­ur seg­ir „und­ar­leg“, verið mjög áfram um að stilla upp á lista. Svo­kallað Reykja­vík­ur­ráð hafi skipað í nefnd­ina, með kosn­ingu sem fram fór í fe­brú­ar síðastliðnum, og hef­ur Ingólf­ur ým­is­legt að at­huga við þá fram­kvæmd.

Benedikt Jóhannesson.
Bene­dikt Jó­hann­es­son. Ljós­mynd/​Aðsend

Í fyrsta lagi

Spurður að því hvers vegna hann hafni sæti á lista seg­ir Ingólf­ur að tvennt ráði þar um:

„Ég var í fyrsta lagi mjög óánægður með hvernig þessi upp­still­ing­ar­nefnd var sett upp. Hverj­ir voru í henni og hvernig var raðað í hana var mjög und­ar­legt.“

„Við sem vor­um í þessu Reykja­vík­ur­ráði, við feng­um svona 15 sek­úndna kynn­ingu á því hverj­um yrði stillt upp í nefnd­ina og svo var bara kosið með eða á móti á Zoom-fundi. Þetta var í raun eig­in­lega eng­in kosn­ing, það voru eng­ir mót­fram­bjóðend­ur, svo kem­ur í ljós seinna hverj­ir þetta voru. Við feng­um ekk­ert að vita strax hverj­ir þetta voru, hvar þetta fólk var staðsett á land­inu eða hver þeirra bak­grunn­ur var. Sum­ir í Reykja­vík­ur­ráðinu voru svo sjálf­ir í upp­still­ing­ar­nefnd og svo var eitt­hvað af því fólki í fram­boði líka, þannig þetta var allt sam­an mjög und­ar­legt.“

Ingólf­ur held­ur áfram: „Svo kem­ur í ljós að þessi kynn­ing sem við feng­um á þeim sem yrðu í upp­still­ing­ar­nefnd var alls ekk­ert viðeig­andi. Þetta var svona glans­mynd sem við feng­um af þessu fólki.“

Í öðru lagi

Ingólf­ur seg­ir svo að sér hafi end­an­lega verið mis­boðið þegar í ljós kem­ur að upp­still­ing­ar­nefnd hafnaði fyrr­nefnd­um Bene­dikt Jó­hann­es­syni. Það hafi verið önn­ur for­senda þess að hann segði sæti sínu lausu á lista flokks­ins. 

„Þá tók ég skýra af­stöðu, eft­ir að ég fékk 10 mín­útna frest til að ákveða mig, þá sagði ég mig úr því að láta stilla mér upp.“

Þannig þú tel­ur að þarna sé Bene­dikt hlunn­far­inn að þessu leyti og þú ert ekki ánægður með það, eða hvað?

„Klár­lega ekki. Ég meina Bene­dikt er einn helsti hug­sjónamaður flokks­ins og er bú­inn að vera það frá stofn­un. Þótt það hafi komið ein­hver mis­tök eða ein­hvers kon­ar hliðarspor árið 2016-17 í þess­um stormi sem gekk yfir stjórn­mál­in þá, þá var búið að út­skýra þau mis­tök og þetta var svona hliðarspor sem all­ir taka og það á ekk­ert að refsa Bene­dikt fyr­ir það.“

Klíku­skap­ur og klækja­stjórn­mál

Ingólf­ur seg­ir að sér sé ekki í nöp við stjórn­mála­flokk­inn Viðreisn og fólkið inn­an hans, þvert á móti seg­ist hann styðja sér­stak­lega ungt fólk inn­an hans til góðra verka. Hann seg­ir þó að búið sé að ræna völd­un­um inn­an flokks­ins, fá­menn­ur hóp­ur 20-30 ein­stak­linga sem eigi sér fylgj­end­ur inn­an vé­banda Viðreisn­ar. 

„Það er bara búið að ræna ein­hvern veg­inn stjórn­völd­un­um í flokkn­um af fá­menn­um hópi og það er ekk­ert hægt að segja að mér sé í nöp við einn eða neinn, en það er bara mjög leiðin­legt hvernig þetta ástand er orðið.“

Spurður um hvort hon­um finn­ist hafa mynd­ast inn­an Viðreisn­ar valda­blokk­ir eins og gjarn­an mynd­ast inn­an rót­gró­inna stjórn­mála­flokka seg­ir Ingólf­ur:

„Já, og svona gam­aldags klækja­stjórn­mál og gam­aldags klíku­skap­ur.“

Og þetta er frammá­fólk inn­an Viðreisn­ar sem þú vís­ar þarna til?

„Já já, ég stend al­veg fast­ur á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka