Ingólfur Hjörleifsson, fyrrum frambjóðandi Viðreisnar til þingkosninga, lýsir klíkuskap, ólýðræðislegri aðferð við val á lista og valdmannslegri framkomu fámenns hóps innan flokksins, í samtali við mbl.is.
Sjálfur hefur Ingólfur sagt sæti sínu lausu á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann gaf kost á sér í 3.-5. sæti listans en honum blöskraði þegar Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður flokksins og einn stofnenda hans, var hlunnfarinn um sæti á lista af uppstillingarnefnd flokksins í Reykjavík.
Ingólfur segir að hann hefði frekar kosið að prófkjör yrði haldið en að fámennur hópur hafi, með vinnubrögðum sem Ingólfur segir „undarleg“, verið mjög áfram um að stilla upp á lista. Svokallað Reykjavíkurráð hafi skipað í nefndina, með kosningu sem fram fór í febrúar síðastliðnum, og hefur Ingólfur ýmislegt að athuga við þá framkvæmd.
Spurður að því hvers vegna hann hafni sæti á lista segir Ingólfur að tvennt ráði þar um:
„Ég var í fyrsta lagi mjög óánægður með hvernig þessi uppstillingarnefnd var sett upp. Hverjir voru í henni og hvernig var raðað í hana var mjög undarlegt.“
„Við sem vorum í þessu Reykjavíkurráði, við fengum svona 15 sekúndna kynningu á því hverjum yrði stillt upp í nefndina og svo var bara kosið með eða á móti á Zoom-fundi. Þetta var í raun eiginlega engin kosning, það voru engir mótframbjóðendur, svo kemur í ljós seinna hverjir þetta voru. Við fengum ekkert að vita strax hverjir þetta voru, hvar þetta fólk var staðsett á landinu eða hver þeirra bakgrunnur var. Sumir í Reykjavíkurráðinu voru svo sjálfir í uppstillingarnefnd og svo var eitthvað af því fólki í framboði líka, þannig þetta var allt saman mjög undarlegt.“
Ingólfur heldur áfram: „Svo kemur í ljós að þessi kynning sem við fengum á þeim sem yrðu í uppstillingarnefnd var alls ekkert viðeigandi. Þetta var svona glansmynd sem við fengum af þessu fólki.“
Ingólfur segir svo að sér hafi endanlega verið misboðið þegar í ljós kemur að uppstillingarnefnd hafnaði fyrrnefndum Benedikt Jóhannessyni. Það hafi verið önnur forsenda þess að hann segði sæti sínu lausu á lista flokksins.
„Þá tók ég skýra afstöðu, eftir að ég fékk 10 mínútna frest til að ákveða mig, þá sagði ég mig úr því að láta stilla mér upp.“
Þannig þú telur að þarna sé Benedikt hlunnfarinn að þessu leyti og þú ert ekki ánægður með það, eða hvað?
„Klárlega ekki. Ég meina Benedikt er einn helsti hugsjónamaður flokksins og er búinn að vera það frá stofnun. Þótt það hafi komið einhver mistök eða einhvers konar hliðarspor árið 2016-17 í þessum stormi sem gekk yfir stjórnmálin þá, þá var búið að útskýra þau mistök og þetta var svona hliðarspor sem allir taka og það á ekkert að refsa Benedikt fyrir það.“
Ingólfur segir að sér sé ekki í nöp við stjórnmálaflokkinn Viðreisn og fólkið innan hans, þvert á móti segist hann styðja sérstaklega ungt fólk innan hans til góðra verka. Hann segir þó að búið sé að ræna völdunum innan flokksins, fámennur hópur 20-30 einstaklinga sem eigi sér fylgjendur innan vébanda Viðreisnar.
„Það er bara búið að ræna einhvern veginn stjórnvöldunum í flokknum af fámennum hópi og það er ekkert hægt að segja að mér sé í nöp við einn eða neinn, en það er bara mjög leiðinlegt hvernig þetta ástand er orðið.“
Spurður um hvort honum finnist hafa myndast innan Viðreisnar valdablokkir eins og gjarnan myndast innan rótgróinna stjórnmálaflokka segir Ingólfur:
„Já, og svona gamaldags klækjastjórnmál og gamaldags klíkuskapur.“
Og þetta er frammáfólk innan Viðreisnar sem þú vísar þarna til?
„Já já, ég stend alveg fastur á því.“