Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir borgina þurfa að taka myglumál fastari tökum. Auk þess eigi ekki að þurfa að myndast þrýstingur frá foreldrasamfélaginu eða fjölmiðlum svo upplýsingar fáist. Reykjavíkurborg eigi að hafa frumkvæði í að koma með upplýsingar.
Að mati Valgerðar er um skort á upplýsingum að ræða og vinna þurfi miklu hraðar í myglumálum. „Það voru gerð mistök í Fossvogsskólamálinu að draga rannsókn svona lengi og að gera ekki betri úttekt á skólanum strax í byrjun fyrir þremur árum,“ segir Valgerður.
„Einhvern veginn veit enginn neitt núna og það er svo vond staða til að vera í og skapar svo mikið óöryggi,“ segir Valgerður og bætir við: „Við í Sjálfstæðisflokknum höfum verið að leggja fram tillögur og kalla eftir mælingum í ákveðnum skólum og þeim tillögum hefur ekki verið svarað.“
Valgerður segist ekkert hafa heyrt um stöðuna í Fossvogsskóla og hún viti ekki hvernig kennslu verði háttað næsta vetur. „Ég hefði viljað að það hefði verið allt sett á fullt við að græja færanlegar stofur við skólann svo það yrði sem minnst rask fyrir börnin,“ segir Valgerður og bætir við: „Það er óskaplega mikilvægt bæði fyrir allt foreldrasamfélagið í Fossvoginum og fyrir starfsmenn skólans að vita hvar starfsemin verður næsta skólavetur.“
Valgerður segist munu halda áfram að halda málefninu á lofti. „Við höfum heyrt frá foreldrum í öðrum skólum en í Fossvogsskóla að þar séu veik börn og að búið sé að tilkynna það. Ég mun halda áfram að óska eftir því að ákveðnir skólar séu teknir út og þá af óháðum aðilum,“ segir Valgerður.
Varðandi mygluna í leikskólanum Kvistaborg segir Valgerður að þar sé um að ræða sömu myglu og kom upp árið 2017 og að af því máli hafi heldur engar fréttir fengist. Hún hafi óskað eftir því að það yrði tekið fyrir í skóla- og frístundaráði en það hafi hins vegar, enn sem komið er, ekki verið gert.