Icelandair mun ná þeim áfanga í þessari viku að fljúga yfir 100 flug frá Keflavíkurflugvelli. Þetta er í fyrsta sinn frá því um miðjan mars 2020 sem félagið er með yfir 100 brottfarir á einni viku. Vikuna 9.-15. mars 2020 tóku ferðatakmarkanir gildi vegna COVID-19 faraldursins, fyrst í Bandaríkjunum og stuttu síðar í Evrópu.
„Það felast ákveðin tímamót í því að fljúga yfir 100 flug til áfangastaða Icelandair í einni viku eftir 15 mánaða baráttu við heimsfaraldur,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningu og segir hann starfsmenn fyrirtækisins finna fyrir aukinni eftirspurn almennings.
Bæði alþjóðaflug og innanlandsflug hefur tekið við sér samhliða því sem bólusetningum miðar fram og létt er á ferðatakmörkunum.
Í þessari viku flýgur Icelandair 106 áætlunarferðir í millilandaflugi og yfir 70 ferðir innanlands, auk þess sem félagið heldur uppi fraktflugi og leiguflugi, að því er segir í tilkynningu frá flugfélginu.
Í síðustu viku hóf Icelandair flug til Billund og Genf í Evrópu á nýjan leik og til Minneapolis í Bandaríkjunum. Í þessari viku hefur Icelandair einnig flug til Helsinki á ný. Félagið flýgur nú í beinu flugi til 23 áfangastaða, fimmtán í Evrópu og átta í Norður-Ameríku.