Ísland gæti haldið stærsta rafíþróttamót heims

Frá tölvuleikjamótinu í Laugardalshöll í maí.
Frá tölvuleikjamótinu í Laugardalshöll í maí. Ljósmynd/Riot Games

Tölvuleikjaframleiðandinn Valve tilkynnti í dag að stórmótið The International muni hugsanlega ekki verða haldið í Stokkhólmi eins og áætlað var. Valve horfir því nú til annarra Evrópulanda til að sjá hvort hægt sé að færa mótið.

Í tilkynningunni segir að svo geti farið að The International, sem er mót í leiknum Dota 2 og um leið einn stærsti, ef ekki stærsti, viðburður rafíþróttaheimsins, verði ekki haldið í Stokkhólmi.

Stefnt hefur verið að því að halda mótið frá 5.-15. ágúst í sumar.

Tilkynningin kemur í kjölfar ákvörðunar sænskra yfirvalda um að skilgreina mótið með öðrum hætti en hafði verið lofað, en með því getur Valve ekki gengið út frá því sem vísu að allir sem tengist mótinu muni fá leyfi til að ferðast til landsins.

Valve horfir því nú til annarra Evrópulanda til að sjá hvort hægt sé að færa mótið, og virðist þar skipta miklu að landið sem taki við þeim gulltryggi að allir sem tengist mótinu geti komist til landsins.

Skjáskot úr tilkynningu Valve.
Skjáskot úr tilkynningu Valve.

Tækifæri fyrir Ísland

Eins og margir vita hefur Ísland nýlokið því að hýsa tvö af stærstu mótum tölvuleikjaframleiðandans Riot Games í leikjunum þeirra League of Legends og Valorant og er umtalað hversu vel gekk, meðal annars meðal starfsmanna Riot. Ísland getur því vel stillt sér upp sem góðum valkosti til að fá að hýsa mótið.

TI er sem fyrr segir einn stærsti viðburður rafíþróttaheimsins. Myndu eflaust einhverjir fara svo langt að kalla mótið það stærsta og hefur því jafnvel einstaka sinnum verið líkt við Ólympíuleikana í virðingaskala innan rafíþróttaheimsins.

Fyrir utan árið 2020, þegar fresta þurfti mótinu, hefur það verið haldið á hverju ári síðan 2011 og hefur sífellt slegið met í fjölda áhorfa og upphæð vinningafés í rafíþróttum.

Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands (RÍSÍ) hafði þetta að segja um málið:

„Það er ljóst að hér er gríðarlega stórt tækifæri fyrir Ísland og mikilvægt að keyra áfram á því sem við höfum nú þegar unnið okkur inn þegar við héldum mót Riot Games hér í Laugardalshöll í maí. Talið er að þau mót hafi skilað hundruðum milljóna í hagkerfið að ónefndri allir þeirri umfjöllun sem Ísland fékk. Þetta mót sem við erum að tala um hérna, má segja að sé á öðrum skala og því vinningarnir enn meiri ef við getum látið úr þessu verða. Það er víst að RÍSÍ munu gera allt sem samtökin geta til þess að gera Ísland að álitlegum kosti fyrir Valve.“

Heildarverðlaunafé upp á tæplega 5 milljarða

Heildarverðlaunafé mótsins í ár er 4,9 milljarðar íslenskra króna, en það er hæsta verðlaunafé á nokkru rafíþróttamóti nokkru sinni. Með því er TI að fara að slá sitt eigið met enn einu sinni, en fimm hæstu verðlaunafé í rafíþróttamótum hingað til hafa verið á TI.

Fimm hæstu verðlaunafé í rafíþróttum hafa verið á The International.
Fimm hæstu verðlaunafé í rafíþróttum hafa verið á The International. Skjáskot/esportsearnings.com

Milljónir áhorfa

Erfitt er að finna tölur fyrir áhorf á mótið en ljóst er að það hleypur á milljónum. Árið 2019 er víst að a.m.k. 1,9 milljón manns horfðu á úrslitaleik mótsins á sama tíma en að jafnaði voru rúmlega 700 þúsund áhorf yfir mótið.

Þessar tölur gera ekki ráð fyrir kínversku áhorfi né því þegar fólk horfir saman, og ef þetta er sett í samhengi við áhorfstölur á stærstu League of Legends mótunum má reikna með því að fleiri en 50 milljón einstaklingar horfi á einhvern hluta mótsins á einhverjum tímapunkti.

Til mikils að vinna

Slíku verðlaunafé og áhorfi fylgir mikil virðing og er alltaf öllu tjaldað fyrir mótið. Má áætla að umfang mótsins væri enn stærra en fyrrgreind mót Riot Games sem haldin voru hér á landi en talið er að þau hafi skilað hundruðum milljóna í hagkerfið. Það er því til mikils að vinna fyrir Ísland ef að landið nær að stilla sér upp sem besta umsækjanda til að halda mótið.

Í þeim anda sendir Aron einnig skilaboð til allra sem myndu vilja sjá þetta verða að veruleika:

„Við hjá RÍSÍ höfum sett okkur í samband við Valve en við vitum öll að allt hjálpar í svona málum. Þannig ef þú þekkir einhvern sem vinnur hjá Valve, eða þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem vinnur hjá Valve, máttu endilega hafa samband við okkur svo við getum reynt að nálgast þetta úr mörgum áttum til að auka okkar líkur.“

Hægt er að ná í Rafíþróttasamtök Íslands með því að senda tölvupóst á rafithrottir@rafithrottir.is eða í síma 699-4647.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka