„Þegar Íslendingar ferðuðust sjálfir sem mest innanlands á árinu 2020 vegna Covid-19-heimsfaraldurs fengu þeir oftar en ekki fyrirmyndarafgreiðslu og þjónustu á ensku og urðu að kyngja því að lesa matseðla, auglýsingar og tilkynningar sömuleiðis á ensku.“
Þetta má lesa í frétt Háskólans á Hólum um nýja skýrslu um ensku sem ríkjandi mál í ferðaþjónustu hér á landi. Ferðamáladeild skólans vann skýrsluna í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar og má lesa hana á heimasíðu skólans (holar.is), að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag
Þær Ágústa Þorbergsdóttir, starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Anna Vilborg Einarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir, lektorar við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, rannsökuðu hvert væri ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustu. Niðurstöðurnar benda til þess „að ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í þjónustu sinni. Þeir telja að enska verði að vera ráðandi tungumál í ferðaþjónustu, sérstaklega í markaðssetningu og færri en fleiri sjá ástæðu til þess að nota íslensku meðfram ensku.“