„Við erum að sjá mikla fjölgun tilkynninga vegna vanrækslu á börnum, eða um 21,5% milli ára. Þetta eru allt saman mál sem tekur tíma að vinda ofan af. Það kostar mannafla og það þurfa að vera til úrræði við hæfi. Þetta verður verkefni barnaverndarkerfisins næstu árin,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu.
Mikil fjölgun varð á tilkynningum til barnaverndarnefnda á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Barnaverndarstofu. Nemur aukningin 17,5% en tilkynningar voru alls ríflega 3.500 talsins. Flestar voru þær vegna vanrækslu á börnum líkt og verið hefur síðustu ár. Alls voru 43,9% tilkynninganna vegna vanrækslu. Næstflestar tilkynningar voru vegna áhættuhegðunar barna og þar á eftir komu tilkynningar vegna ofbeldis í garð barna.
Í samantekt Barnaverndarstofu kemur fram að tilkynningar er varða heimilisofbeldi voru 43,1% fleiri á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 en á sama tímabili árið áður.
Óhugnanlegar tölur koma fram um tilkynningar vegna kynferðisofbeldis. Þær voru alls 224 talsins á fyrstu þremur mánuðum ársins en það eru 86,7% fleiri tilkynningar en á sama tíma árið 2020. „Raunar er staðan sú að sá fjöldi tilkynninga sem hafa borist barnaverndarnefndum á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 er svipaður fjölda slíkra tilkynninga sem bárust barnaverndarnefndum á fyrstu 6 mánuðum síðastliðinna ára,“ segir í samantekt Barnaverndarstofu.