Atvinnuleysi dregst saman um 2,8% milli mánaða

mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í maí 5,8%. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 77,9% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 72,2%. 

Samanburður við apríl 2021 sýnir að árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka dróst saman um 1,0 prósentustig á milli mánaða á meðan árstíðaleiðrétt atvinnuleysi dróst saman um 2,8 prósentustig á milli mánaða. Leitni atvinnuleysis hefur verið frekar stöðug síðustu sex mánuði á meðan leitni atvinnuþátttöku jókst um 0,8 prósentustig. Árstíðaleiðrétt hlutfall atvinnulausra einstaklinga á aldrinum 16-24 ára dróst saman um 13,7 prósentustig á milli mánaða.

Samkvæmt Hagstofu er áætlað að 36.500 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu í maí 2021 sem jafngildir 16,6% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 48,4% atvinnulaus, 16,1% tilbúið að vinna en ekki að leita, 10,5% í vinnuleit en ekki tilbúin að vinna og 25,0% vinnulítil (starfandi í hlutastarfi sem vilja vinna meira). Samanburður við maí 2020 sýnir að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað um 3,3 prósentustig á milli ára. Leitni slaka hefur staðið í stað síðustu þrjá mánuði í 14,4% en hefur þó lækkað um 1,1 prósentustig á síðustu sex mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert