Samkvæmt áætlun verður í lok þessarar viku búið að bjóða öllum bólusetningu gegn Covid-19 sem skilgreindir eru í forgangshópum samkvæmt gildandi reglugerð um bólusetningar. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fella brott ákvæði reglugerðar sem kveður á um forgangshópa.
Bólusetning gegn Covid-19 byggist þar með á sömu reglugerðarheimildum og bólusetning við öðrum smitsjúkdómum hér á landi. Fram kemur í tilkynningu að með reglugerðarbreytingunni verður ákvörðun um bólusetningu Covid-19 alfarið á forræði sóttvarnalæknis samkvæmt læknisfræðilegu mati hverju sinni.
Samkvæmt þeim reglugerðarákvæðum sem gilt hafa um bólusetningu gegn Covid-19 hafa bólusetningar barna sem fædd eru árið 2006 eða síðar einskorðast við börn með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem sóttvarnalæknir metur í sérstökum áhættuhópi vegna Covid-19. Með þeirri breytingu sem hér um ræðir falla þessi skilyrði brott og sóttvarnalækni verður þar með heimilt að bjóða bólusetningar fyrir börn, telji hann efni standa til þess og það samræmist ábendingum bóluefnis. Nú þegar hefur eitt bóluefni fengið markaðsleyfi hér á landi fyrir börn niður að 12 ára aldri.