Gullleit í Þormóðsdal

Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir hjá Iceland Resources. Fyrirtækið á mikinn gagnabanka …
Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir hjá Iceland Resources. Fyrirtækið á mikinn gagnabanka um gullleit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við verðum með rannsóknarboranir vegna gullleitar í Þormóðsdal í sumar. Undirbúningur að frekari rannsóknum hefur staðið yfir og næstu verkefni okkar eru fullfjármögnuð,“ sagði Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir, forstjóri Iceland Resources ehf. (IR). Hún tók við forstjórastarfinu í ágúst síðastliðnum.

„Það er til gull í jörðu á Íslandi. Spurningin er hvort hér finnst vinnanlegt magn,“ sagði Þórdís. „Gullleit hér á sér meira en 100 ára sögu og það hefur verið safnað miklum gögnum. Margir hafa komið að leitinni. Iceland Resources hefur safnað saman og eignast öll gögn sem gullleit á Íslandi hefur skilað. Sérfræðingar okkar eru nú að vinna úr þeim. Þessi gagnabanki er styrkur okkar.“

Fyrirtækið er með gild rannsóknarleyfi í Þormóðsdal, á Tröllaskaga og í Vopnafirði, að því er fram  kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

„Við höfum unnið með háskólum í Bretlandi og í Kanada og sjáum fyrir okkur að námuvinnsla á Íslandi verði tæknivædd og vistvæn. Að hér skapist hátæknistörf í þessum geira,“ sagði Þórdís. „Þetta er margra ára verkefni en ég tel að það séu gríðarlega mikil tækifæri í þessu fyrir okkur Íslendinga. Við erum lítið þjóðfélag en sveigjanleg og fljót að læra. Það hefur komið í ljós í öllu sem við gerum. Námur hér verða aldrei stórar og við höfum góða sýn á hvernig við viljum gera hlutina á umhverfisvænan og snyrtilegan hátt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert