Framkvæmdir við uppsetningu gagnvirkra hraðahindrana á Ennisbraut í Ólafsvík hefjast á næstu vikum. Um tækninýjung er að ræða og kemur fram á vefsíðu Vegagerðarinnar að gagnvirkar hraðahindranir virki á þann veg að hleri fellur niður um nokkra sentimetra ef ökutæki er ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða.
Hraðahindrunin er af gerðinni Actibump frá sænsku fyrirtæki en fyrstu hraðahindranir þessarar tegundar voru settar upp í Svíþjóð árið 2010.
„Í dag eru þessar hraðahindranir alþjóðleg lausn sem hefur verið komið fyrir í löndum víðs vegar um heiminn. Stærsti munurinn á hefðbundnum hraðahindrunum og virkum hraðahindrunum er sá að ökutæki þurfa ekki að hægja á sér áður en ekið er yfir hraðahindrunina og því hægt að viðhalda jöfnum umferðarhraða innan leyfilegra marka,“ segir á vef Vegagerðarinnar.
Fram kemur að búnaðurinn virkar þannig að skynjari, yfirleitt radarmælir, mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina sé ökutæki ekið of hratt. „Þegar hraðahindrunin er virkjuð fellur hleri, sem búið er að koma fyrir í yfirborði vegarins, niður um nokkra sentimetra, við það fá ökumenn óþægilegt högg á ökutækið.“
Gagnvirka hraðahindrunin sem Vegagerðin leigir ætti að verða tilbúin í lok júní gangi áætlanir eftir. Um er að ræða tilraunarverkefni til eins árs en ef vel tekst til stendur til að kaupa búnaðinn að ári.