Vilja að bólusetning standi námsmönnum til boða í allt sumar

Bólusetning við Covid-19 í Laugardalshöll.
Bólusetning við Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) hefur skorað á heilbrigðisyfirvöld að gera íslenskum námsmönnum, sem koma til Íslands í sumarleyfi frá námi sínu, kleift að fá bólusetningu við Covid-19 í allt sumar. 

„Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að hlé verði gert á bólusetningum í júlí og byrjun ágúst. Fyrir þá námsmenn sem dvelja á Íslandi einungis þann tíma sem bólusetningahléið varir gæti það þýtt að þeir þurfi að fara aftur út í námsland óbólusettir upp á von og óvon um hvort þeim bjóðist bólusetning þar næsta haust eða vetur,“ segir í yfirlýsingu frá SÍNE. 

Fer stjórn SÍNE fram á að þeim sem þess þurfa verði gert mögulegt að fá bólusetningu í allt sumar. 

Greint var frá því í dag að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að fella brott ákvæði reglugerðar sem kveður á um forgangshópa. Bólusetning gegn Covid-19 byggist þar með á sömu reglugerðarheimildum og bólusetning við öðrum smitsjúkdómum hér á landi. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hægt verði að óska eftir bólusetningu við Covid-19, en að framkvæmdin verði önnur en við á um önnur bóluefni þar sem undirbúa þurfi bóluefni við Covid-19 sérstaklega og koma í veg fyrir að efnið fari til spillis. 

„Þetta verður auglýst á Heilsuveru að fólk geti skráð sig, þeir sem ekki hafi fengið bólusetningu við Covid. Það er ekki víst að þeir geti fengið það 1, 2  og 3 því þetta er þannig bóluefni að það þarf að undirbúa það, svo fólki verður væntanlega safnað saman svo að bóluefnið skemmist ekki eða nýtist eins vel og hægt er. Þá getur fólk skráð sig í bólusetningu, en það getur ekki labbað inn á heilsugæslu og fengið strax sprautu. Það þarf að skrá sig, panta og skipuleggja fram í tímann,“ segir Þórólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert