Markmið um þjónustuþekjun í átt að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvanda náðust á Íslandi á fyrstu þremur starfsárum Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C sem hófst 2016.
Vísindatímaritið The Lancet Gastroenterology & Hepatology birti 22. júní grein eftir hóp vísindamanna á Landspítala, Sjúkrahúsinu Vogi og hjá embætti landlæknis um árangur átaksins.
Af 865 greindum tilfellum lifrarbólgu C á Íslandi fengu 824 (95,3%) þjónustu í átakinu og 717 (90,2%) hlutu lækningu á þeim tíma. Talað er um þennan árangur sem mikilvægan áfanga í átt að útrýmingu lifrarbólgu C, samkvæmt fréttatilkynningu frá Sigurði Ólafssyni, Ragnheiði Huldu Friðriksdóttur og Magnúsi Gottfreðssyni.
„Við höfum haldið fjöldann allan af erindum um átakið og kynnt mörg vísindaágrip á alþjóðlegum ráðstefnum á undanförnum árum. Það hafa margir leitað til okkar og horft á hvernig við nálgumst þetta vandamál. Við höfum líka lært af öðrum,“ sagði Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala, sem hefur verið í forsvari fyrir verkefnið.
Hann sagði að þverfagleg nálgun sem hér var beitt og samvinna við fíknilækningar á Vogi hafi gert kleift að bjóða þessa þjónustu þeim sem sprauta sig með vímuefnum í æð. Sá hópur hefur víða annars staðar orðið út undan eða verið útilokaður frá meðferð.
Markaðsvirði lyfja sem Íslendingar fengu frá Gilead í átakinu er metið allt að tíu milljarðar, að því er fram kemur í Morgublaðinu í dag.