Hagstæður hiti sjávar við Vestmannaeyjar skapar góðar aðstæður til að ala lax í kerum á landi. Hópur fjárfesta hefur gert samkomulag við Vestmannaeyjabæ um að fá úthlutaðri lóð í Viðlagafjöru á svokölluðu Nýjahrauni fyrir landeldisstöð.
Hafið er umhverfismatsferli vegna verkefnisins á vegum félagsins Sjálfbært fiskeldi í Eyjum ehf. Lárus Ásgeirsson stjórnarmaður segir gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári, ef nauðsynleg leyfi fáist fyrir þann tíma, og að lax verði settur í stöðina á árinu 2023.
Stefnt er að því að framleiða 10 þúsund tonn á ári en að framkvæmdin verði áfangaskipt. Fyrst verði byggt upp til framleiðslu á fimm þúsund tonnum og annað eins verði í síðari áfanga.
Í Viðlagafjöru er efnisnáma og segir Lárus að jafna þurfi lóðina með efnisflutningum innan svæðis. Hafi framkvæmdir þar því lítil umhverfisáhrif. Vestmannaeyjar eru það sunnarlega að þar er hægt að ná í hlýjasta sjóinn við landið. Aðstæður henta því vel til eldis á laxi í kvíum á landi. Ekki þarf mikinn aðgang að köldu eða heitu vatni. Áformað er að fá seiði ofan af landi en Lárus segir ekki ákveðið hvort fyrirtækið framleiði þau sjálf eða kaupi af öðrum.