Ferðamenn smitast af tilslakanagleðinni

Sky Lagoon opnaði í byrjun maí.
Sky Lagoon opnaði í byrjun maí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, segir tilslakanirnar ekki hafa bein áhrif á starfsemi lónsins, enda hefur hún verið óhindruð í dágóðan tíma. Það megi hins vegar merkja áhrif hinna góðu frétta í andrúmsloftinu sem skili sér jafnvel til erlendra ferðamanna. 

„Ég var einmitt með erlendan blaðamann hjá mér sem hafði orð á því hvað allir væru léttir og kátir í dag,“ sagði Dagný í samtali við mbl.is síðdegis í dag, en hún merkir einnig að færri séu smithræddir.

Sá blaðamaður hafði hitt íslenskar mæðgur í gufunni og átt við þær gott spjall sem endaði með áformum stallanna þriggja um að fá sér drykk saman í kvöld. 

Stemmningin er góð í fólkinu sem sækir lónið í dag að sögn Dagnýjar. 

„Ekki nóg með að heimamenn séu glaðir heldur líka erlendu ferðamennirnir, þeir hrífast svo með.“

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon.
Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt að gerast hægt og rólega

Sky Lagoon opnaði í byrjun maí og bauð upp á kynningarafslátt af heimsóknum út mánuðinn. Það var fljótt að verða uppbókað en Dagný segir að það gangi ekki síður vel nú. 

„Við sjáum fjölgun erlendra ferðamanna en það er breyting viku frá viku. Þetta er allt að gerast hægt og rólega,“ sagði hún og kvaðst bjartsýn þótt það væri ljóst að árið verði aftur þungt fyrir ferðaþjónustuna.

Dagný finnur fyrir miklum áhuga ferðamanna í október og nóvember. Þótt ástandið á Íslandi sé gott þá er ferðamannaiðnaðurinn háður því að önnur lönd komist á sambærilegan stað.

Sú ákvörðun að hætt verði við skimanir bólusettra einstaklinga á landamærum frá og með 1. júlí muni flýta fyrir fjölgun ferðamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert