„Við erum að setja fleiri á svæðið en þetta er komið vel á annað hundrað,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg. Hann segir að verið sé að leita á öllu gossvæðinu, leitað hafi verið á þeim stað þar sem sást síðast til mannsins og þar allt í kring.
Maðurinn sem leitað er að er erlendur ferðamaður og varð hann viðskila við konu sína um miðjan dag, að sögn Jónasar.
„Það er ekkert skyggni á svæðinu og leiðinlegt veður, þannig að við erum að leita allt í kringum gossvæðið og alls staðar þar sem við teljum að hann gæti hafa farið,“ segir Jónas.
Þegar hraðleit á svæðinu skilaði ekki árangri var viðbragð björgunarsveita aukið, hátt í annað hundrað leita nú á svæðinu og verið er að setja fleiri á það.
Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa verið kallaðar út, auk leitar- og sporhunda af fleiri svæðum, ásamt öllum björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu.