Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglumenn vera að íhuga stöðu sína. Sambandið hefur leitað til lögmanns og möguleiki er á því að gefin verði út kvörtun til Persónuverndar. Von er á frekari yfirlýsingu frá Landssambandi lögreglumanna á mánudaginn.
Fjölnir telur að ástæða sé til að kvarta til Persónuverndar yfir því hvernig farið hefur verið með upptökur úr búkmyndavélum lögregluþjónanna tveggja sem voru kallaðir á vettvang vegna sóttvarnabrots í Ásmundarsal.
Hann bendir á að þarna sé til meðferðar persónulegt samtal milli tveggja lögreglumanna sem beinist ekki að neinum á staðnum. Lögreglumenn séu með búkmyndavélar öryggis síns vegna og borgaranna sem megi svo nota í rannsóknum sakamála.
„Mér finnst mjög óeðlilegt að þessi nefnd sé að skoða upptökur úr þessum búkmyndavélum og hlusta á það hvað fer lögreglumönnum á milli,“ segir Fjölnir og bætir við að freklega sé gengið á persónufrelsi þessara lögreglumanna.
Þá þykir honum enn alvarlegra að persónulegt samtal milli tveggja manna sé nú komið í fjölmiðla. Hann grunar ekki að nefndin hafi sjálf lekið gögnunum en með einhverjum hætti komst skýrslan í hendur fjölmiðla.
Ekki gat Fjölnir séð að neitt væri sett út á eiginleg störf þessara lögreglumanna á vettvangi. Þeir hafi talið að á staðnum ætti sér stað sóttvarnabrot og í kjölfarið rýmt húsið.
„Hvort þeir hafi svo persónulegar skoðanir eins og aðrir borgarar, mér finnst það bara vera þeirra réttur.“ Hann ítrekar jafnframt að lögreglumennirnir hafi staðið til hliðar og ekki látið hin umdeildu ummæli falla út á við heldur aðeins sín á milli.
Fjölnir veltir fyrir sér hve langt sé eðlilegt fyrir eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu að ganga í að hafa eftirlit með lögreglumönnum. Þarna sé hún farin að hafa eftirlit með hugsunum þeirra, að þeir hugsi hlutlaust.
„Ég fer oft á vettvang með myndavél og svo hreinlega gleymi ég að slökkva á myndavélinni. Þá siturðu bara í lögreglubílnum með félaga þínum og ert að tala um fjölskylduna eða börnin þín og það er allt í upptöku. Það fer líka upptaka af stað í lögreglubílum um leið og við setjum bláu ljósin í gang,“ segir Fjölnir. Lögreglumenn eru að hans mati undir miklu eftirliti og því spyr hann hvort það sé ekki rétt að takmarka nýtingu upptaka við þau tilvik þar sem þær snúa raunverulega að einhverjum málum.
Að svo sögðu segir Fjölnir að hann sé ekki að svara fyrir það hvernig upplýsingagjöf til fjölmiðla hafi verið háttað í tengslum við sóttvarnabrotið í Ásmundarsal.
Persónulega þyki honum ekki eðlilegt að sérstaklega sé tekið fram í fréttatilkynningu frá lögreglu að ráðamaður hafi verið viðstaddur tiltekin veisluhöld.
Hann bendir þó á að ólíklegt sé að lögreglumennirnir sem voru á vettvangi hafi sjálfir skrifað fréttatilkynninguna enda komi hún væntanlega frá einhverjum sem sé hærra settur.