Tíðni ungbarnadauða er mjög lág hér á landi, eða þrisvar sinnum lægri en meðaltíðni í löndum Evrópusambandsins, samkvæmt nýjum gögnum Eurostat sem birtust í Morgunblaðinu á þriðjudag.
„Það sem mestu máli skiptir varðandi velferð ungbarna er að hér á landi er mjög gott mæðraeftirlit, fæðingahjálp og ungbarnavernd, auk þess sem þjónusta við nýfædd börn er mjög góð,“ segir Þórður Þórkelsson, yfirlæknir nýburalækninga og vökudeildar Barnaspítala Hringsins í Morgunblaðinu í dag.
„Það skiptir trúlega einnig máli að bæði mæðraeftirlit og ungbarnavernd eru ókeypis, auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hér á landi er almennt mjög gott.“
Spurður hvort bólusetningar gegn ungbarnasjúkdómum hafi áhrif segir hann að þó svo að í sumum löndum Evrópu séu hlutfallslega færri börn bólusett en hér á landi skýri það trúlega ekki þennan mun á dánartíðni milli landa, þar sem börn séu ekki að deyja úr þeim sjúkdómum í sama mæli og hér áður fyrr.