Það var glampandi sól, varla ský á himni og um sextán gráður þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði á Seyðisfirði í gær, rétt rúmum sex mánuðum eftir að þrjár aurskriður féllu í syðri hlíðum fjarðarins og allt breyttist.
Nýtt hættumat vegna ofanflóða hafði nýlega verið staðfest þegar hörmungarnar dundu á bænum.
„Þetta var bara eitthvað sem enginn átti von á og var í rauninni mjög einstakt,“ segir Aðalheiður Bergþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Seyðisfirði og núverandi fulltrúi sveitarstjóra. Hún útskýrir að í nýlegu hættumati hafi einungis verið reiknað með mikilli hættu innar í firðinum þar sem fyrri tvær aurskriðurnar féllu.
Stærsta aurskriðan féll 18. desember, nokkuð utarlega í firðinum sunnanverðum. Sjálf er hún búsett á svæðinu þar sem stóra skriðan féll og horfði á húsið sitt hverfa í myrkrið og rykið sem þyrlaðist upp við aurskriðuna. Síðar kom í ljós að aurskriðan hafði beygt af leið og blessunarlega ekki lent á húsi Aðalheiðar, þar sem synir hennar voru.
Allt í kringum hús Aðalheiðar má sjá svæði sem hefur verið hreinsað, grafið og heflað. Læknum sem rennur undan fossinum í hlíðinni hefur verið veitt í nýjan farveg og grjóti raðað meðfram. Varnargarðar hafa verið myndaðir til bráðabirgða úr aurnum sem féll og í hann sáð. Gras er tekið að spretta úr jarðvegssárinu og segja má að sárin séu bókstaflega farin að gróa á Seyðisfirði.
Aðalheiður segir almenna ánægju ríkja með hreinsunarstarf í bænum enda hafi það verið tekið föstum tökum. Sveitarfélagið fer með verkstjórn á hreinsunarstarfi sem er að miklu leyti greitt af Ofanflóðasjóði og Náttúruhamfaratryggingum.
Hún segir svæðið ekki síst merki um nýtt upphaf. „Ég er bjartsýn. Mér finnst þetta spennandi,“ segir Aðalheiður.
Sérstök verkefnastjórn hefur unnið í atvinnumálum á Seyðisfirði eftir hamfarirnar sem og sérstök ráðgjafanefnd um færslu átta húsa, sem hægt er að flytja af hættusvæðinu inn í bæinn í kringum lónið.
„Ég held að þetta muni styrkja þessa torfu í kringum lónið. Fram komnar hugmyndir eru mjög spennandi,“ segir Aðalheiður. Hún bætir því við að flutningur húsa sé kostnaðarsöm aðgerð og verið sé að meta þann kostnað.
Samstarfsnefnd ráðuneytanna vegna Seyðisfjarðar var stödd á svæðinu á þriðjudag að skoða aðstæður.
„Ég trúi því að allir aðilar og þingmenn sem komið hafa að heimsækja okkur séu bjartsýnir á að geta lagt eitthvað af mörkum, því að þetta eru menningarverðmæti.“
Spurð hvort hægt verði að byggja svæðið sem hefur verið hreinsað eftir aurskriðurnar segir Aðalheiður að enn sé verið að rannsaka aðstæður. Sérfræðingar á vegum Veðurstofu Íslands meti hvernig ofanflóðavarnir hafi tekist til. Búið sé að setja upp mikinn fjölda mæla upp í hlíðina og áætlanir uppi um betra dren. „Eins þarf að setja upp mæla í sífrerann, það er ekki búið að rannsaka hann nógu vel,“ segir Aðalheiður og bendir á snæviþakinn tind efst í hlíðinni. Enn eigi síðan eftir að hækka og styrkja varnargarða sem settir voru upp til bráðabirgða á svæðinu.