Allt Vesturland verður skreytt í regnbogalitum

Unga fólkið í bænum málaði þetta skilti árið 2020.
Unga fólkið í bænum málaði þetta skilti árið 2020.

Það er ekki á hverjum degi að LGBTQ-Íslendingar eignast ný samtök, og hvað þá að slík félög spretti upp á landsbyggðinni. En í miðjum faraldri tók hópur fólks sig saman og setti á laggirnar samtökin Hinsegin Vesturland. Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir grunnskólakennari er forseti félagsins og er stefnan sett á að halda fyrstu Hinsegin hátið Vesturlands í Borgarnesi dagana 9. til 11. júlí.

Þegar hún er spurð um þörfina fyrir félagsskap sem þennan segir Guðrún að þó að margt hafi breyst til betri vegar standi hinsegin fólk á landsbyggðinni enn þá frammi fyrir ýmsum áskorunum og mikilvægt að bæði auka sýnileika þess og bjóða þeim sem þurfa upp á stuðning við hæfi.

Sjálf er Guðrún lesbía og minnist þeirra erfiðleika sem hún þurfti að glíma við á uppvaxtarárum sínum á sveitabænum Staðarhrauni sem er stutt frá Borgarnesi. „Mér fannst ég vera alein og engin umræða átti sér stað í samfélaginu um fólk í mínum sporum,“ segir Guðrún en þegar hún komst á fullorðinsár flutti hún til Reykjavíkur þar sem henni gafst langþráð tækifæri til að fikra sig út úr skápnum og átta sig betur á eigin tilfinningum.

„Fyrir sjö árum sneri ég aftur á heimaslóðir og fann að þó að margt hefði breyst síðan ég var ung þurfti að gera enn betur, og ekki síst að gæta hagsmuna unga fólksins. Er gaman að segja frá því að bara á þessum örfáu árum hefur andrúmsloftið haldið áfram að batna og í unglingabekkjunum í sveitarfélaginu hafa nokkrir krakkar tekið af skarið og komið út úr skápnum.“

Guðrún kveðst verða vör við mikinn velvilja fólksins í Borgarbyggð, og þó að endrum og sinnum megi greina dreggjar af úreltum viðhorfum til hinsegin fólks miði öllu í rétta átt. Stofnun Hinsegin Vesturlands var vel tekið, félögum fjölgar jafnt og þétt og fjömargir hafa boðið sig fram til að taka þátt í skipulagningu hinsegin hátíðarinnar. Velviljann má einnig finna í því hversu vel fulltrúum félagsins hefur gengið að selja ýmiss konar regnbogavarning til að afla fjár fyrir hinsegin hátíðna í júlí. Svo hefur félagið einnig fengið styrki fyrir hátíðina bæði úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Menningarsjóði Borgarbyggðar. Á Guðrún von á því að þegar stóri dagurinn rennur upp verði Borgarnes og allt Vesturland skreytt regnbogalitunum.

Guðrún og Bjargey Anna Guðbrandsdóttir forsvarsmenn félagsins með Sigursteini Sigurðssyni …
Guðrún og Bjargey Anna Guðbrandsdóttir forsvarsmenn félagsins með Sigursteini Sigurðssyni sem veitti þeim styrk úr sjóði SSv.

Þriggja daga veisla

Guðrún segir dagskrána byrja með n.k. stofnunarhátíð. „Stofnun félagsins fór fram í gegnum fjarfundaforritið Zoom og ætlum við að eiga skemmtilega stund augliti til auglitis föstudaginn 9. júlí. Laugardaginn 10. júlí verður síðan efnt til gleðigöngu eftir aðalgötu bæjarins og endum við í Dalhalla. Þar bjóðum við upp á skemmtidagskrá og eigum m.a. von á leikhópnum Lottu og þær María og Ingileif frá Hinseginleikanum verða kynnar. Sölutjöld verða í Skallagrímsgarði og fyrir þau sem hugsa um heisluna verður haldinn hinsegin spinning-tími hjá líkamsræktarstöðinni þar sem framlag hinsegin fólks til poppmenningarinnar verður væntanlega ráðandi í lagavalinu.“

Dagskránni lýkur síðan í Borgarneskirkju þar sem haldin verður regnbogamessa kl. 17 á sunnudeginum.

Vonir standa til að halda dansleik á laugardagskvöldinu en Guðrún segir skipuleggjendur bíða átekta enda ekki víst hvort sóttvarnareglur leyfi mjög stórar samkomur innandyra. Einn allra vinsælasti plötusnúður landsins er í viðbragðsstöðu og von á miklu fjöri ef af verður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert