Bjartsýnn á að maðurinn finnist heill á húfi

Björgunarsveitir við eldgosið.
Björgunarsveitir við eldgosið. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Um fimmtíu manns hafa í morgun leitað bandarísks ferðamanns um sextugt sem týndist við gosstöðvarnar í Geldingadölum í gær. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur leitað úr lofti í morgun og drónar hafa einnig verið notaðir við leitina. 

Leitin hefur enn engan árangur borið að sögn Jónasar Guðmundssonar, verkefnastjóra slysavarna hjá Landsbjörg. 

„Við erum að bæta við mannskap og bíðum svo eftir þeim sem koma úr hvíld eftir að hafa leitað í gærkvöldi og nótt. Við höldum bara áfram að leita,“ segir Jónas. 

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að maðurinn finnist heill á húfi segir Jónas:

„Við erum alltaf bjartsýn á það. Við höfum fullt af dæmum þar sem við finnum fólk tveimur, þremur dögum eftir að það týndist, þó að fólk sé volkað hefur það engar alvarlegar afleiðingar. Við erum alltaf bjartsýn, annars stæðum við ekki í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert