Starfsemi Vöku við Héðinsgötu 2 í Laugarneshverfi í Reykjavík samræmist hvorki landnotkun svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skipulagsskilmálum, hvort sem litið er til Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 eða gildandi deiliskipulags.
Af þeim sökum er tímabundið starfsleyfi Vöku sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) veitti í febrúar fellt úr gildi. Þetta kemur fram í úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem féll í gær.
Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um starfsemi Vöku en starfsemi fyrirtækisins var flutt að Héðinsgötu í byrjun árs 2020. Nágrannar kvörtuðu undan hávaða og mengun frá fyrirtækinu og það starfaði án leyfis í rúmt ár. Einn nágranna Vöku kærði ákvörðun HER um að veita tímabundið starfsleyfi.
Í úrskurði nefndarinnar eru vinnubrögð HER átalin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.