Matvælastofnun hefur veitt Háafelli, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins-Gunnvarar, rekstrarleyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi. Laxeldi hefst því í Djúpinu næsta vor.
Matvælastofnun hafnaði rökum Arnarlax sem gerði athugasemdir við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslum sem ræður því hvaða fiskeldisfyrirtæki fá leyfi og hver ekki.
„Þetta er langþráður áfangi. Tilkynning um eldi á sjö þúsund tonnum af laxi og regnbogasilungi var send inn í nóvember 2011. Þetta er því endirinn á tíu ára ferli,“ segir Gauti Geirsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Háafells, og heldur áfram: „Við erum ánægð með að vera komin með leyfið í hendur og spennt að geta gert það sem við viljum gera, að ala fisk á sjálfbæran hátt í stað þess að vera í skriffinnsku sem engu skilar.“
Háafell hefur leyfi til að ala sjö þúsund tonn af regnbogasilungi og þorski og er að ala regnbogasilung sem settur var út í sjókvíarnar nú í vor og í fyrravor. Fyrri hópnum verður slátrað í haust og þeim seinni að ári, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.