„Það er merkilegt hvað maður virðist venjast því að hafa goshver í garðinum,“ segir Hannes Sigurðsson, bóndi á Reykjavöllum í Biskupstungum.
mbl.is greindi frá því fyrr í mánuðinum þegar goshver opnaðist óvænt í bakgarði Hannesar er hann hugðist nýta heitt vatn úr gömlum borholum.
Goshverinn hlaut þá nafnið Kurteis, sem Hannes segir hafa komið vegna þess að honum hafi fundist goshverinn svo afskaplega kurteis við sig, með því að hafa ekki slasað hann við óvæntu opnunina.
„Það er búið að vera mjög lítið af túristum, sem betur fer, en Íslendingar koma svolítið,“ segir Hannes og bendir á að aðstaðan til að taka á móti fólki á svæðinu í kringum goshverinn sé ekki nógu góð. „Það á eftir að gera allt umhverfið þarna í kringum þetta.“
Hverinn gjósi með reglulegu millibili eins og í byrjun mánaðar þegar hann opnaðist og gosstrókurinn sé um 10-15 metra hár.
„Ætli hann gjósi ekki á um sjö til tuttugu mínútna millibili, svona 10 mínútur yfirleitt.“
Hannes segir að enn sé þó til staðar mikill spenningur yfir hvernum og hann sé spenntur fyrir því að koma svæðinu umhverfis goshverinn í betri horfur.