Jónsmessubað í Þistilfirði

Varðeldurinn yljaði köldum kroppum eftir Jónsmessubaðið í Þistilfirðinum.
Varðeldurinn yljaði köldum kroppum eftir Jónsmessubaðið í Þistilfirðinum. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Jónsmessunóttin, aðfaranótt 24. júní er samkvæmt íslenskri þjóðtrú ein þeirra fjögurra nátta sem taldar eru hvað magnaðastar og yfirnáttúrulegir hlutir geta gerst. Þessa nótt á döggin að öðlast lækningamátt svo afar heilnæmt á að vera að velta sér þá nakinn upp úr dögginni.

Baðbomburnar, sjósundkonur á Þórshöfn og nágrenni, völdu þó heldur stærri og votari flöt en döggina til að baða sig upp úr á Jónsmessunótt, sjálfan Þistilfjörðinn. Hann er heilnæmur líkt og döggin en mun ókyrrari, því öldugangur var nokkur.

Svalt var í veðri þessa nótt, lofthitinn var rúm fjögur stig en sjórinn hlýrri eða 6,7 stig svo það var eiginlega notalegt að komast í sjóinn úr loftkuldanum. Varðeldur var kveiktur í fjörunni til að ylja sér eftir baðið og var þessi Jónsmessunótt sannarlega kynngimögnuð svo allar Baðbombur voru endurnærðar á sál og líkama eftir baðið og setu við eld og þær telja mikil sannindi fólgin í þessari gömlu þjóðvísu:

„Ef þín er lundin þjáð og hrelld,

þessum hlýddu orðum:

Gakktu með sjó eða sittu við eld,

svo kvað völvan forðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert