Maðurinn enn ófundinn – leit heldur áfram

Björgunarsveitir standa vaktina á gosstað. Mynd úr safni.
Björgunarsveitir standa vaktina á gosstað. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn hefur leit að erlendum ferðamanni við gosstöðvarnar í Geldingadölum engan árangur borið. Maðurinn varð viðskila við eiginkonu sína um miðjan dag í gær og hefur hans verið leitað síðan. 

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að aðstæður til leitar hafi batnað með morgninum. 

„Leitin hefur staðið yfir í alla nótt og hann er ófundinn. Leitarskilyrði í gær voru ekki góð á svæðinu, en þegar fór að draga að miðnætti fóru þau aðeins að skána, þoku fór að lyfta. Núna er sýnist mér heiðskírt og góð skilyrði,“ segir Gunnar.

Miðað við ákveðið leitarsvæði 

„Um leið og aðstæður leyfðu fór þyrla Landhelgisgæslunnar í leitarflug og hún er enn þá á lofti við leit,“ segir Gunnar. Drónar voru notaðir við leitina þar til þyrlan komst á svæðið en það skilaði engum árangri að sögn Gunnars. Útgangspunktur leitarinnar er svæði þar sem björgunaraðilar telja að maðurinn hafi orðið viðskila við konu sína. 

Talsverður fjöldi hefur leitað mannsins í nótt og fóru vaktaskipti fram á milli klukkan 5 og 6 í morgun. Spurður hvort maðurinn hafi verið vel búinn segir Gunnar:

„Hann var svo sem ekki mjög illa búinn, en kannski ekki miðað við að það var rigning þarna í gær og fram eftir kvöldi. En hann á að vera vel á sig kominn sem gefur einhverja von.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert