Nýta allar bjargir sem henta á svæðinu

Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar.
Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir víða að af landinu hafa verið kallaðar út vegna leitar að bandarískum ferðamanni um sextugt sem týndist við gosstöðvarnar í Geldingadölum fyrir hartnær sólarhring. 

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg, segir að aðstæður á leitarsvæðinu séu góðar:

„Það eru búnar að vera ljómandi fínar aðstæður. Það er reyndar mjög hvasst hérna, en þess utan er heiðskírt og gott skyggni. Við getum ekki kvartað.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði úr lofti í morgun en fór til Reykjavíkur um klukkan 12. Von er á henni aftur síðar í dag. 

„Við erum að nota dróna líka, fjórhjól, buggy-bíla, mannfólk, hunda og bara allar bjargir sem henta á svæðinu,“ segir Jónas. 

Hafa leitarhundar ekkert getað fundið?

„Sporhundurinn sýndi einhver merki og við erum að reyna að vinna út frá því en það er samt ekkert sem er í hendi,“ segir Jónas. 

Fólk við gosstöðvarnar hafi augun hjá sér 

Maðurinn varð viðskila við eiginkonu sína um klukkan 15 í gær og hefur verið saknað síðan. Fólk sem lagt hefur leið sína að gosstöðvunum er beðið að hafa augun hjá sér:

„Bæði ef það sér auðvitað einhverja einstaklinga en eins ef það er eitthvað sem fólk sér sem það telur að gæti tengst þessum týnda,“ segir Jónas. 

Tæplega 100 björgunarsveitarmenn eru nú við leit að manninum. 

„Við erum búin að kalla út allt Suðurlandið alveg austur fyrir Höfn, allt Vesturland, Norðurland líka og svo auðvitað Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið. Við erum komin með alveg rúmlega hálft landið undir þetta,“ segir Jónas og bætir við:

„Það eru eins og er tæplega hundrað manns að leita vegna þess að þeir sem voru í nótt og fram á morgun eru enn þá í hvíld.“

Möguleiki að maðurinn hafi farið út á hraunið 

Jónas segir að leitarsvæðið sé stækkað eftir því sem tíminn líður:

„Eftir því sem tíminn líður horfum við alltaf til stærra leitarsvæðis. Maður veit ekki hvort sá týndi er á röltinu eða situr kyrr og eftir því sem tíminn líður hefur hann meiri tíma til að rölta.“

Þá segir Jónas það vera inni í myndinni að maðurinn hafi farið út á hraunbreiðuna.

„Það er er alveg sviðsmynd sem við horfum til en hún er ekkert sterkari en aðrar. Við erum alltaf með 2-3 sviðsmyndir sem við skoðum og þetta er ein þeirra,“ segir Jónas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert