Umferðaröngþveiti á Selfossi: „Nýja brú strax!“

Nokkur umferð var við Selfoss um fjögurleytið á föstudag.
Nokkur umferð var við Selfoss um fjögurleytið á föstudag.

Nokk­urr­ar óánægju gæt­ir meðal íbúa á Sel­fossi og annarra sem eiga leið þar um vegna um­ferðaröngþveit­is sem skap­ast oft við bæ­inn, sér­stak­lega um helg­ar.

Vil­borg G. Han­sen, íbúi á Sel­fossi, er ein þeirra sem hef­ur þurft að bíða lengi í bíln­um til að kom­ast inn á Sel­foss. „Ég var klukku­stund að kom­ast inn í bæ­inn frá end­an­um á Hvera­gerði, leið sem tek­ur um tíu mín­út­ur. Ég keyri fram hjá Hvera­gerði og þá er um­ferðin bara að keyra á tíu, ekki einu sinni það,“ seg­ir hún.

Hún hef­ur verið bú­sett á Sel­fossi í þrjú ár og seg­ist hafa tekið eft­ir mik­illi aukn­ingu á um­ferðinni á þeim tíma. Erfitt sé að kom­ast inn í bæ­inn síðdeg­is og ferðamenn eigi enn eft­ir að bæt­ast við eft­ir Covid.

Þá sé mjög erfitt að kom­ast út á aðal­veg bæj­ar­ins og íbú­ar þurfi annaðhvort að keyra íbúðargöt­ur eða keyra á enda bæj­ar­ins að hring­torgi til að snúa við.

Gert ráð fyr­ir tveir plús einn vegi

Unnið er að nýj­um vegi á milli Hvera­gerðis og Sel­foss en gert er ráð fyr­ir að hann verði tveir plús einn með mögu­leika á breikk­un síðar. Vil­borg seg­ir að nær væri að hafa veg­inn tvö­fald­an í báðar átt­ir.

Þá myndi um­ferðin skipt­ast upp í þá sem eiga leið á Sel­foss og þá sem eru að fara í bú­staði og beygja upp í Gríms­nes við Bisk­upstungna­braut og það myndi létta mikið á um­ferð.

Brúin yfir Ölfusá.
Brú­in yfir Ölfusá. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Drífa þurfi nýja brú í útboð

Byggja á nýja brú yfir Ölfusá ofan við Sel­foss og er áætlað að hún verði kláruð í lok árs 2023 eða árið 2024, líkt og fram kem­ur á Vísi.

„Við erum að bíða eft­ir og hamra á að ný brú verði byggð yfir Ölfusá sem fyrst til að létta á um­ferðinni. Tölu­verður hluti um­ferðar­inn­ar er að fara aust­ur og þegar ný brú kem­ur fáum við ekki alla þessa óþarfa um­ferð í gegn­um bæ­inn, til dæm­is þunga­flutn­ing­ana,“ seg­ir Helgi S. Har­alds­son, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Árborg­ar.

Nýja brú­in er að hans sögn lyk­ill­inn að framtíðar­skipu­lagi svæðis­ins.

Hann legg­ur áherslu á að verkið verði boðið út sem fyrst. „Þegar búið verður að bjóða það út tek­ur við tveggja ára verk­efni að klára brúna. Við bíðum eft­ir því að þetta verði boðið út svo þetta kom­ist af stað, sá tími sem líður þangað til þetta verður boðið út bæt­ist við þessi tvö ár. Okk­ur er sagt að það muni ger­ast kannski í haust eða um ára­mót­in,“ seg­ir Helgi. 

Hann seg­ir að þangað til sé lítið hægt að gera til að liðka fyr­ir um­ferðinni en sum­ir íbú­ar séu farn­ir að keyra Þrengsl­in til að koma hinum meg­in inn á Sel­foss. Málið sé í ákveðinni patt­stöðu.

Umferð á Suðurlandsvegi er oft þung.
Um­ferð á Suður­lands­vegi er oft þung. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Núm­er eitt, tvö og þrjú

Hvað varðar veg­inn á milli Hvera­gerðis og Sel­foss seg­ir Helgi að Vega­gerðin vinni eft­ir ákveðnum um­ferðastöðlum um hve mik­il um­ferð þarf að vera til að lagður sé tveir plús tveir veg­ur og það sé lítið hægt að eiga við það.

Bæj­ar­stjórn hafi hins veg­ar bent Vega­gerðinni á að úr því að áætlan­ir geri ráð fyr­ir mis­læg­um gatna­mót­um beggja meg­in við Sel­foss ætti að ráðast í þau strax, en Vega­gerðin ger­ir ráð fyr­ir að byggja fyrst venju­leg hring­torg og byggja mis­lægu gatna­mót­in síðar.

„Fyrst það er búið að hanna mis­læg gatna­mót og tryggja land fyr­ir þau ætti að hugsa um að byggja þau strax, því við sjá­um fyr­ir okk­ur að með ein­föld­um hring­torg­um verði enn þá ákveðinn tappi í um­ferðinni við bæ­inn,“ seg­ir hann.

„En nýja brú­in er núm­er eitt, tvö og þrjú og við erum búin að hamra á henni í mörg ár. Hún er lyk­ill­inn og mun losa okk­ur við um­ferð og þunga­flutn­inga í gegn­um bæ­inn. Það þarf að drífa hana í útboð og fram­kvæmd. Nýja brú strax!“ seg­ir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka