Besta upplifunin tók tíma

Einar Gíslason með niðjatalið sem tók 18 ár að setja …
Einar Gíslason með niðjatalið sem tók 18 ár að setja saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Gíslason var fyrstur íslenskra ungmenna til þess að hlaupa 100 metrana undir 11 sekúndum, hljóp á 10,9 nýorðinn 17 ára 1963 og setti drengjamet. Nú má segja að spretthlauparinn, sem var Íslandsmeistari í karlaflokki 1969, sé í langhlaupi í keppni við tímann. „Ég er svona móður vegna blóðsjúkdóms, en reglulegar sterasprautur halda mér gangandi,“ segir hann raunsær.

Þolinmæði er Einari reyndar í blóð borin. Hann fæddist og ólst upp í Þingholtunum í Reykjavík, hljóp og stökk yfir tún og læki og byrjaði ungur að æfa frjálsíþróttir. „Ég hef alltaf verið einfari og mér leið vel á Melavellinum,“ rifjar hann upp. Minnist þess sérstaklega þegar hann heilsaði Da Silva, brasilíska gullverðlaunahafanum í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu 1956, og silfurhafanum Vilhjálmi Einarssyni, eftir keppni þeirra á Melavellinum 1957. „Þeir kveiktu svo sannarlega í mér, ófermdum guttanum, og ekki var heldur leiðinlegt, þegar Evrópumeistarinn Gunnar Huseby kom á æfingar hjá Benna Jak í KR.“

Kennsla og grúsk

Lengst af hefur Einar átt heima í Hafnarfirði. Hann kvæntist Halldóru Jóhannsdóttur rúmlega tvítugur og eignuðust þau þrjár dætur en Halldóra lést 2005. Seinni eiginkona hans er Bergþóra Jónsdóttir.

Brauðstritið varð til þess að Einar hætti að æfa og keppa í íþróttum 23 ára eftir að hafa verið landsliðsmaður í frjálsum 1963 til 1969. Hann hélt samt áfram tengingu við íþróttirnar. Var til dæmis nuddari unglinga- og karlalandsliða KSÍ seint á áttunda áratugnum og til loka þess níunda og kennari í 46 ár. Þar af sundkennari í gömlu sundhöllinni í Hafnarfirði í 35 ár og er gjarnan kallaður Einar sundkennari, en auk þess var hann jafnframt bóknáms- og smíðakennari þar í bæ. Hann var íþróttakennari í Vogaskóla í 11 ár, kenndi leikfimi í herbragganum Hálogalandi og sund í gömlu sundlaugunum í Laugardal.

Dekkjaslöngurnar nýttust sem kútar í gamla daga.
Dekkjaslöngurnar nýttust sem kútar í gamla daga.

„Aðstæður til sundkennslu í gömlu steinþrónni í Laugardal voru ólíkar því sem nú þekkist og breytingin var mikil að fara úr Hálogalandi í Laugardalshöllina,“ segir Einar. Í Höllinni hafi tveir kennarar verið með 60 nemendur í einu og til að eyða ekki of miklum tíma í að kanna hverjir væru mættir hafi númerin frá einum upp í 60 verið skráð á langhliðina þar sem útdregnu áhorfendapallarnir eru, hver nemandi hafi haft sitt númer og hlaupið að því í upphafi hvers tíma. „Þá þurftum við bara að merkja við auðu númerin, ef einhver voru,“ segir Einar og bætir við að alltaf hafi verið gengið fylktu liði inn í salinn. „Þessar hópæfingar voru mjög skemmtilegar.“

Langafi Einars í föðurætt átti 17 systkini, en fátt var vitað um hann og þegar Einar var um fertugt ákvað hann að leita upprunans. „Ég lagði flest annað til hliðar í um 18 ár og fór meðal annars til Utah til að fá upplýsingar um þrjú systkini, sem fluttu þangað og gerðust mormónar,“ segir Einar, sem gaf út niðjatal með upplýsingum um öll systkinin 2001. „Þessi leit að rótunum er líklega besta upplifun mín og sérstaklega var gaman að finna ættingja, Wendell Van Twelves, sem var sérstaklega heiðraður sem orrustuflugmaður.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert