Hjónin Becky og Scott Estill eru þaulvant göngufólk frá Colorado. Þau gerðu engu að síður mistök sem kostuðu Scott nær lífið þegar þau gengu að gosstöðvunum í Geldingadölum á föstudag.
Þetta sagði Becky í kvöldfréttum Rásar 1. „Þú átt aldrei að yfirgefa göngufélaga þinn. Þú átt alltaf að vera með vatn og farsíma. Þetta eru mistök sem við gerðum og þetta er útkoman. Hann dó næstum því.“
Scott Estill varð viðskila við eiginkonu sína síðdegis á föstudag. Nærri þrjú hundruð manns komu að leitinni sem stóð yfir í rúman sólarhring en Scott fannst um klukkan sjö í gærkvöldi, um fjóra kílómetra norðvestur af gosstöðvunum og hafði gengið í þveröfuga átt.
Becky lýsir því í samtali við RÚV hvað hún varð óttasleginn þegar hún uppgötvaði að Scott væri týndur og að það hafi verið erfitt að gera ekkert gert nema bíða á meðan hans var leitað. Hjónin eru ólýsanlega þakklát þeim sem tóku þátt í leitinni.
Scott var nokkuð hress þegar hann fannst en þó lerkaður og var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann dvelur enn.