Talsmaður sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, Patrick Geraghty, segir vísindin verða að ráða því hvenær ferðabanni Bandaríkjanna gagnvart Íslandi og öðrum Schengen-ríkjum verður aflétt.
Ferðabann til Bandaríkjanna gagnvart íbúum Schengen-ríkjanna, þar á meðal Íslands, vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið í gildi síðan í mars í fyrra.
Íslendingar hafa því ekki getað ferðast til Bandaríkjanna í á annað ár nema þeir falli undir sérstaka undanþágu. Undanþágur eiga til dæmis við um námsmenn í skólum í Bandaríkjunum, vísindamenn og þá sem þurfa að sinna nauðsynlegum viðskiptaerindum.
Bólusettir Bandaríkjamenn geta þó ferðast til Íslands og annarra landa í Evrópu.
„Öryggi borgara og ferðafólks er forgangsatriði fyrir Bandaríkin líkt og aðrar þjóðir, þar á meðal Ísland. Ferðatakmarkanir voru upprunalega settar á vegna þess sem vísindin sögðu til um á þeim tíma,“ segir Patrick.
„Við hlökkum til þess þegar ferðalög yfir Atlantshafið hefjast að nýju um leið og vísindin leyfa. Þau verða að ráða för. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvenær létt verður á takmörkunum eða þær afnumdar. Ákvarðanir um það eru teknar í samræmi við vísindin og ráðleggingar frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna og heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti Bandaríkjanna,“ segir hann.
Spurður hvort Bandaríkin muni opna fyrir öllum Schengen-ríkjum í einu eða hvort þau íhugi að opna fyrst fyrir ferðalög frá þeim löndum þar sem stór hluti íbúa hefur verið bólusettur og staða faraldursins er góð, eins og á Íslandi, segist Patrick ekki geta sagt til um það þar sem slíkar ákvarðanir verði teknar í Hvíta húsinu.
Hann ráðleggur öllum að fylgjast vel með vefsíðu sendiráðsins, sem og covid.is, þar sem nýjar upplýsingar eru færðar inn.