Er goshlé?

Eldgosið á Reykjanesi
Eldgosið á Reykjanesi mbl.is/Árni Sæberg

Svo virðist sem verulega hafi dregið úr krafti eldgossins í Fagradalsfjalli nú síðdegis, en í tilkynningu á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands er spurt hvort mögulega sé um goshlé að ræða. 

„Eftir því sem leið á daginn virðist hafa lækkað í hrauntjörninni samhliða því að óróagröf Veðurstofunnar fóru að sýna afmarkaða púlsa í virkninni. Nokkuð þétt þoka hefur lagst yfir gosstöðvarnar og sést því ekki inn í gíginn. Áður en þokan skall á sást hins vegar ekkert hraunrennsli frá gígnum, sem er til marks um lækkað yfirborð hrauntjarnarinnar,“ segir í  tilkynningu á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. 

Í tilkynningunni segir einnig að óróagraf Veðurstofunnar í Grindavík sýni afar lítinn óróa eftir kl. 19.30 í kvöld, en að mjög daufir púlsar síðustu tvo tímana gætu bent til þess að enn skvettist úr hrauntjörninni. 

Mikil þoka er yfir gosstöðvunum og erfitt að sjá hvort í raun og veru sé um goshlé að ræða. „Því er óvissa þessa stundina hvort goshlé sé hafið, en það mun vonandi skýrast um leið og þokunni léttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert