Svo virðist sem verulega hafi dregið úr krafti eldgossins í Fagradalsfjalli nú síðdegis, en í tilkynningu á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands er spurt hvort mögulega sé um goshlé að ræða.
„Eftir því sem leið á daginn virðist hafa lækkað í hrauntjörninni samhliða því að óróagröf Veðurstofunnar fóru að sýna afmarkaða púlsa í virkninni. Nokkuð þétt þoka hefur lagst yfir gosstöðvarnar og sést því ekki inn í gíginn. Áður en þokan skall á sást hins vegar ekkert hraunrennsli frá gígnum, sem er til marks um lækkað yfirborð hrauntjarnarinnar,“ segir í tilkynningu á facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.
Í tilkynningunni segir einnig að óróagraf Veðurstofunnar í Grindavík sýni afar lítinn óróa eftir kl. 19.30 í kvöld, en að mjög daufir púlsar síðustu tvo tímana gætu bent til þess að enn skvettist úr hrauntjörninni.
Mikil þoka er yfir gosstöðvunum og erfitt að sjá hvort í raun og veru sé um goshlé að ræða. „Því er óvissa þessa stundina hvort goshlé sé hafið, en það mun vonandi skýrast um leið og þokunni léttir.“