Fimm ný kórónuveirusmit innanlands

Frá skimun vegna Covid-19 á Suðurlandsbraut.
Frá skimun vegna Covid-19 á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt nýtt kórónuveirusmit greindist innanlands síðastliðinn föstudag og fjögur á laugardag. Öll smitin greindust utan sóttkvíar, samkvæmt tölum á Covid.is.

Smitin sem greindust utan sóttkvíar tengjast þó öll landamærunum, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna. Hinir smituðu höfðu allir greinst neikvæðir á landamærunum en jákvæðir þegar þeir tóku PCR-próf áður en þeir ætluðu að snúa aftur til síns heima. Þeir höfðu því verið smitaðir innanlands í einhvern tíma en bæði er um að ræða bólusetta og óbólusetta einstaklinga. 

Tölur á Covid.is eru nú uppfærðar á mánudögum og fimmtudögum.

Síðan tölurnar voru uppfærðar síðast hafa greinst átta virk smit á landamærunum auk eins smits sem ekki er vitað hvort sé nýtt eða gamalt. Í því tilviki er mótefnamælingar beðið. Nokkur gömul smit hafa sömuleiðis greinst á landamærunum.

20 manns bætast við í sóttkví

Í fréttatilkynningu frá almannavörnum vegna smitanna sem greindust á föstudag og laugardag segir að nokkur erill hafi verið um helgina hjá smitrakningarteymi almannavarna vegna ferðamanna sem greindust smitaðir á landamærunum og í skimun vegna vottorða á leið úr landi. 

Hluti af þessum hóp greinist í skimun á leið út úr landi og því teljast þau smit sem innanlandssmit. Í þeim tilfellum sem upp komu um helgina voru um 20 manns sem bættust við hópinn sem er í sóttkví á Íslandi,“ segir í tilkynningunni og jafnframt:

Rakningarteymið heldur áfram að rekja öll þau smit sem upp koma á landinu. Svo virðist sem ekki allir átti sig á að þrátt fyrir breytingarnar um helgina þá gilda sömu reglur og áður og því er ítrekað að þrátt fyrir að samkomutakmörkunum hafi verið aflétt innanlands þá gilda sömu reglur um sóttkví og einangrun ef einstaklingur er með COVID-19 smit.  Allir geta ennþá farið í sóttkví/einangrun, einnig bólusettir einstaklingar.  Verið er að breyta þeim reglum og verða þær kynntar þegar það gerist.

Næstkomandi fimmtudag verður hætt að skima þá sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19. Einnig verður hætt að skima börn fyrir COVID-19 við komuna til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert