Jarðskjálftahrina undir Lambafelli við Þrengslin stendur enn yfir. Þar hafa um 60 skjálftar greinst frá miðnætti og sá stærsti 2,3 að stærð. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir hrinuna ekki tengjast beint eldvirkninni á Reykjanesskaganum.
„Það eru einhverjar spennubreytingar þarna sem valda því að þessir skjálftar eru að hrökkva. Það hafa oft komið skjálftar þarna áður, það eru nokkrir staðir þar sem svona skjálftahrinur taka sig upp. Það þarf ekki að benda til neins nema að þarna sé einhver veikleiki fyrir og það sé að losna út einhver spenna þarna á svæðinu,“ segir Einar.
Hann segir ekkert benda til eldgoss á svæðinu þar sem þá myndi mun stærri skjálftahrina fylgja því.
„Það yrði þá mun stærri hrina sem mundi fylgja því og miklu stærri skjálftar sem mundu finnast vel í byggð af því að þarna er þetta komið miklu nær höfuðborgarsvæðinu.“
Hann bendir á það að sams konar hrina hafi fundist á jarðskjálftamælum árið 2018 þar sem stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð.