Hitamet var slegið í fordæmalausri hitabylgju í Kanada í gær þegar 46,6 stiga hiti mældist í Lytton í Bresku-Kólumbíu. Fyrra met, 45 gráður, var 84 ára gamalt. Ekki er hægt að segja með fullri vissu að losun gróðurhúsalofttegunda valdi bylgjunni. Hún er þó nákvæmlega það sem vísindamenn hafa varað við að geti gerst þegar magn koltvísýrings í andrúmsloftinu verður of mikið.
BBC greinir frá þessu.
Bæði Bandaríkin og Kanada hafa varað borgara sína við hættulegu hitastigi sem gæti haldist verulega hátt í þessari viku.
Svokölluð hitakúpa með háþrýstingi liggur nú yfir vesturhéruðum Bandaríkjanna og Kanada. Háþrýstisvæðið er gríðarlega stórt. Það nær frá Kaliforníu í Bandaríkjunum til norðurskautssvæða Kanada.
Lytton var ekki eini staðurinn þar sem met féllu. Hitamet féllu á 40 öðrum stöðum í Bresku-Kólumbíu. Þá hafa hitamet einnig fallið í Bandaríkjunum, helst í Washington og Oregon.
Bandaríska veðurþjónustan kallaði hitabylgjuna sögulega og sagði að hitatölurnar myndu haldast í hæstu hæðum út vikuna. Þjónustan telur líklegt að met haldi áfram að falla.