Karítas Ríkharðsdóttir
Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður og eigandi fatamerkisins JÖR, segir að hann hafi lengi reynt að bjarga rekstri JÖR áður en það fór í þrot eftir jólin 2016.
„Ég átti hræðilegt haust og var kominn í einhverja neyslu. Ég var greindur með ADHD árið áður og byrjaði á rítalíni, sem gekk svo sem fínt framan af. Svo bara smám saman fór það úr böndunum og ég fór að misnota það,“ segir Guðmundur.
Guðmundur er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hann ræðir fæðingu fyrirtækisins JÖR, gjaldþrot þess og endurreisn síðar, íslenska hönnun og tísku og feril sinn.
Hann segir að hann hafi verið hættur að sofa og reynt hvað hann gat að bjarga rekstrinum en á endanum „krassað“. Eftir það hafi hann ekki haft getu til þess að reyna að bjarga fyrirtækinu.
JÖR var lýst gjaldþrota snemma árs 2017. Guðmundur segir frá því hvernig hann áttaði sig ekki strax á áfallinu og hélt að hann myndi hefja rekstur aftur stuttu síðar en í rauninni hafi þurft nokkurra ára pásu.
Dagmál eru streymisþættir Morgunblaðsins á netinu, opnir öllum áskrifendum blaðsins. Viðtalið við Guðmund Jörundsson má finna hér. Einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.