Segir söluna minna á upphaf hrunsins

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hjá Háskóla Íslands.
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hjá Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segir nýafstaðið hlutafjárútboð Íslandsbanka ekki ósvipað því þegar eignir ríkisins í Búnaðarbankanum og Landsbankanum voru seldar skömmu fyrir síðustu aldamót.

Hann segir að eignir ríkisins í Íslandsbanka hafi verið seldar á undirverði og með það í huga að fjársterkir aðilar, sem Þorvaldur kallar „hákarla“, geti keypt þær upp eftir örfá ár. 

Marg­föld um­fram­eft­ir­spurn var í útboði Íslandsbanka á end­an­legu útboðsverði og sýndu al­menn­ir fjár­fest­ar og fag­fjár­fest­ar útboðinu tals­verðan áhuga. Heild­ar­eft­ir­spurn nam sam­tals 486 millj­örðum króna eða fjór­um millj­örðum banda­ríkja­dala. Áætlað markaðsvirði Íslands­banka miðað við útboðsverð er 158 millj­arðar króna eða 1,3 millj­arðar banda­ríkja­dala.

45,8% hlutur ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var seldur í janúar …
45,8% hlutur ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var seldur í janúar 2003. Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, þá viðskiptaráðherra, Ólafur Ólafsson, formælandi S-hópsins, og Peter Gatti, framkvæmdastjóri þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA. mbl.is/Árni Sæberg

Úr eigu ríkisins í hendur almennings og þaðan í vasa „örfárra einkavina“

„Salan á bréfum ríkisins í Íslandsbanka hefst með nákvæmlega sama hætti og einkavæðing Búnaðarbankans og Landsbankans 1998,“ segir Þorvaldur við mbl.is. 

„Og það sem gert er, er að bjóða bréfin á undirverði, sumir segja með helmingsafslætti. Þarna er verið að selja eigur ríkisins á afslætti og þá er eðlilegt að ef fólk skynjar það að bréfin séu á undirverði, að það rjúki til og kaupi. Og það gerðist líka þegar Búnaðarbankabréfin og Landsbankabréfin voru seld fyrir röskum 20 árum. 

En það sem gerist svo er að þetta fólk sér að það er búið að fá 10,20, 20 prósenta hækkun  á eignina sína og byrjar að selja, hverjir eru það þá sem kaupa? Það eru þeir sem sumir kalla „ryksugur“ og aðrir kalla „hákarla“.“

Hátíðlegar heitstrengingar

Þorvaldur segir að öllum megi vera ljóst hvernig örlög eignir landsmanna í Búnaðarbankanum og Landsbankanum hlutu. Þessar eignir hafi verið seldar almenningi, með „hátíðlegum heitstrengingum“ þáverandi stjórnvalda.

Svo hafi þó farið, segir Þorvaldur, að þessar eignir hafi síðan endað í höndum „örfárra einkavina“. Þeir aðilar hafi síðan aðeins þurft örfá ár til þess að steypa íslenska bankakerfinu í þrot. 

„Og fyrsta skrefið í valsinum núna er nákvæmlega eins og síðast og það bendir mér til þess að menn reyni ekki einu sinni að leyna ásetningi sínum. Klókir menn myndu reyna að breiða yfir þetta til þess að veita ekki færi á því að benda á hliðstæðurnar,“ segir Þorvaldur og hlær, augljóslega gáttaður á framferði stjórnvalda.

Þorvaldur segir enda í kjölfarið að framferði stjórnvalda sé í einu orði sagt: „Yfirgengilegt.“ Hann veltir því fyrir sér hvort yfirvofandi kosningum sé um að kenna. 

Spurður hvort hann sé þá áhyggjufullur um hvort hér stefni í annað bankahrun segir Þorvaldur: „Ef kapallinn rekur sig eins og hann gerði síðast, þá bara enda bankarnir aftur í höndum óverðugra eigenda, það er að segja fólks af því tagi að það ætti bara alls ekki að eiga banka undir neinum kringumstæðum.“

Segir íslenska banka okra

Þorvaldur segir að ranglega hafi verið staðið að endurskipulagningu fjármálakerfisins eftir hrun. Hann segir að í stað þess að ráðast strax í sölu á hlutum ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka (og Landsbankans í framtíðinni ef marka má orð fjármála- og efnahagsráðherra), hefði frekar átt að efla samkeppni í íslensku bankakerfi.

Þannig segist hann ekkert sjá að því að almenningur eignist hluti í íslenskum fyrirtækjum, það sé merki um heilbrigt og gott efnahagskerfi. Hins vegar sé ekkert eðlilegt við það fjármálaumhverfi sem Íslendingar búa við. 

Íslenskir bankar eru fákeppnisfyrirtæki sem okra, segir Þorvaldur.
Íslenskir bankar eru fákeppnisfyrirtæki sem okra, segir Þorvaldur. Samsett mynd

„Ef allt væri eins og það á að vera, þá væri ekkert nema gott um það að segja að almenningur vildi eiga hlut í fyrirtækjum. Það er bara til marks um styrkan fjármálamarkað, ef fyrirtæki geta jöfnum höndum fjármagnað starfsemi sína með lántöku eða með útgáfu hlutafjár. 

En það er bara ekkert eðlilegt ástand á Íslandi. Hér eru þrír bankar, sem hafa þá sérstöðu í allri Evrópu að þurfa ekki að keppa við erlenda banka á heimavelli. Þess vegna eru íslensku bankarnir fákeppnisfyrirtæki, sem borga almenningi alltof lága innlánsvexti og alltof háa útlánsvexti. Þannig eru þau bara fákeppnisfyrirtæki, sem okra bara eins og fákeppnisfyrirtæki gera, það liggur í hlutarins eðli. Og þeim mun verra á það við að einkavæða slíka starfsemi, menn eru að gera þetta í rangri röð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert