„Eftir hádegi fer hópur frá okkur og slekkur á þessum 156 götuhleðslum sem staðsettar eru víðs vegar um borgina,“ segir Breki Logason hjá Orku náttúrunnar.
Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur Orku náttúrunnar verið gert að rjúfa straum af þeim 156 götuhleðslum sem fyrirtækið hefur sett upp víðs vegar í Reykjavík.
Ákvörðunin var tekin í kjölfar kvartana frá Ísorku varðandi það að hleðslurnar séu opnar öllum gjaldfrjálst.
Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðslna og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki var tekið undir önnur sjónarmið Ísorku sem þó voru fjölmörg.
Í ljós kom að Ísorka hafði farið með rangt mál, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins kvað Ísorku ekki hafa sent bréf til kærunefndar útboðsmála og kvartað þar yfir því að rafhleðslustöðvar ON væru áfram opnar.
„Okkur var náttúrulega brugðið þegar það var brugðist svona við en það hafði bara verið einhver misskilningur hjá þeim hvernig staðið hefði á málinu. Það er því bara flott að allt sé komið í ljós hvernig þetta er allt saman.“
Breki segir að skilti verði sett upp við hleðslurnar um leið og þær verða gerðar óvirkar, þar sem fólki er bent á að hlaða annars staðar svo að skýrt sé fyrir öllum að enginn straumur sé á hleðslunum. Þá ítrekar Breki að aðeins verður slökkt á götuhleðslum í Reykjavíkurborg, hraðhleðslustöðvar fyrirtækisins munu enn vera virkar.
Ljóst er að rofning hleðslustöðvanna muni koma til með að hafa áhrif á rafbílaeigendur í Reykjavíkurborg. „Eins og við vitum þá er fullt af rafbílaeigendum sem hafa tekið skrefið og tekið þátt í orkuskiptunum og eru að treysta á þessa þjónustu.“
Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að réttaráhrifum úrskurðarkærunefndar verði frestað. Þau séu íþyngjandi fyrir borgarbúa sem margir hverjir nýti rafknúna bíla og treysti á hleðslustöðvarnar.
Kærunefnd hefur gefið Orku náttúrunnar frest fram á miðvikudag til þess að koma með sjónarmið fyrirtækisins gagnvart þeirri kröfu sem Ísorka lagði fram, um að beita dagsektum þegar ON hafði verið með hleðslurnar gjaldfrjálsar.
„Við munum skila inn okkar sjónarmiðum í því sem eru auðvitað þau að þessi þjónusta er gríðarlega mikilvæg og það eru margir sem stóla á hana.“