Smitrakningu lokið fyrir smitin fimm

Frá skimun vegna Covid-19 á Suðurlandsbraut.
Frá skimun vegna Covid-19 á Suðurlandsbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smitrakningu vegna smita sem greindust utan sóttkvíar um helgina er lokið. Þetta sagði Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is í kvöld. 

„Fyrr í dag voru um 20 manns sem þurftu að fara í sóttkví og það hefur eitthvað bæst í þá tölu en það hleypur ekki á tugum,“ segir Hjördís í samtali við mbl.is.

Hún biður fólk að hlaða niður rakningarappinu til þess að auðvelda almannavörnum smitrakninguna.

„Það skiptir máli bæði til þess að auðvelda smitrakninguna og ekki síður til þess að halda fólki frá sóttkví.“

Hjördís segir þessi smit muni líklega ekki hafa áhrif á áform stjórnvalda um að hætta að skima bólusetta og börn á landamærunum. Hún bætir við að miðað við þessa helgi sé líklegt að fleiri smit muni greinast innanlands á næstu vikum.

„Síðan viljum við minna fólk á að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum,“ segir Hjördís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert