Áttföld eftirspurn var í hlutafjárútboði flugfélagsins Play sem lauk á föstudag. Stefnt er að því að kynna niðurstöður útboðsins eigi síðar en í lok dagsins í dag.
Andri Ingason, sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Arctica Finance sem sér um útboðið, segir eftirspurnina hafa verið umfram væntingar.
„Þetta er virkilega jákvætt og sýnir að fjárfestar, bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, vilja taka þátt í þessari vegferð með okkur,“ segir hann.
Alls bárust um 4.600 áskriftir í hlutafjárútboði Play og hljóða þær samtals upp á 33,8 milljarða króna.
Stjórn Play fundaði í gærkvöldi til að fara yfir áskriftirnar en þær voru að andvirði 6,7 milljarða í gegnum áskriftarleið A og rúmra 27 milljarða í gegnum áskriftarleið B, en stefnt var að því að safna fjórum milljörðum króna.